Fara í efni
Fréttir

Rafmagnslaust í 20 mínútur

Rafmagnslaust var á Akureyri og nágrenni í um 20 mínútur fyrr í kvöld. Það hafði þó að sjálfsögðu engin áhrif á strætóferðir. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Rafmagn fór af á Akureyri og nágrenni á sjöunda tímanum í kvöld. Fram kemur í tilkynningu Landsnets að útleysing hafi orðið á Rangárvöllum, sem hafi valdið rafmagnsleysi á svæðinu, en það fór af kl. 18:26. Rafmagn kom svo aftur inn á öllu svæðinu 20 mínútum síðar, eða kl. 18:46. Á meðal viðburða sem rafmagnsleysið hafði einhver áhrif á var leikur KA og Víkings í Bestu deild karla, en þó óveruleg. 

Á mbl.is er haft eftir Steinunni Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets, að unnið hafi verið í stjórnbúnaði í tengivirki Landsnets á Rangárvöllum við Akureyri. Þá hafi slegið út og ekki vitað nákvæmlega hvað gerðist eða hvernig, en það sé í skoðun.