Rafknúin hlaupahjól til leigu á Akureyri

Leiga á rafknúnum hlaupahjólum – rafskútum – hefst von bráðar á Akureyri. Farartækin hafa notið mikilla vinsælda í Reykjavík síðustu misseri og er vonast til þess að þau verði komin á götuna á Akureyri einhvern næstu daga.
Rafskútuleigan Hopp hóf rekstur á höfuðborgarsvæðinu fyrir tveimur árum og hafa viðtökur verið frábærar að sögn Eyþórs Mána Steinarssonar, framkvæmdastjóra. Axel Jensen á reksturinn fyrir norðan og segir í samtali við Akureyri.net að hann verði með 65 rafskútur til að byrja með. Þær séu nógu kraftmiklar til að komast um allan bæ, til dæmis upp Gilið – sem skiptir örugglega marga Akureyringa miklu máli! Hjólin verða hér og þar um bæinn; engar sérstakar stöðvar en sjái fólk mannlaust hjól er hægt að grípa það og bruna af stað, og hjólið má skilja eftir nánast hvar sem er í bænum.
Hugbúnaðurinn sem notast er við er íslenskur og fyrirtækið alíslenskt. Notendur sækja sér app í símann og greitt verður í gegnum það.