Fara í efni
Fréttir

Ráðhús, KA, skólar, skautahöll og sundlaug

Fyrirhugaður Ráðhúsgarður, vestan við húsið, skv. verðlaunatillögu Yrki arkitekta um viðbyggingu og endurbætur á Ráðhúsi Akureyrar.

Helstu framkvæmdir Fasteigna Akureyrar á næstu árum eru þessar, skv. fjárhags- og framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2022 og þriggja ára áætlun 2023 til 2025, sem samþykkt var samhljóða eftir síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær.

Nýtt hjúkrunarheimili
2022 - 20 milljónir
2023 - 180 milljónir
2024 - 180 milljónir

  • Heimilið verður byggt norðan hjúkrunarheimilisins Lögmannshlíðar í Glerárhverfi. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, lýsti þeirri skoðun sinni á fundinum í gær, að það væri tímaskekkja að sveitarfélög kæmu að uppbyggingu hjúkrunarheimila. Málaflokkurinn væri á ábyrgð ríkisins.

Glerárskóli
2022 - 320 milljónir
2023 - 350 milljónir
2025 - 10 milljónir

Íþróttamiðstöð Glerárskóla
2025 - 130 milljónir

Lundarskóli
2022 - 370 milljónir
2025 - 10 milljónir

Lundarsel
2025 - 65 milljónir

Lóð Oddeyrarskóla
2022 - 120 milljónir

Síðuskóli
2022 - 10 milljónir
2023 - 120 milljónir
2025 - 10 milljónir

Skautahöll - félagsaðstaða
2022 - 160 milljónir

Félagssvæði KA
2022 - 150 milljónir
2023 - 350 milljónir
2024 - 320 milljónir

  • Lagður verður nýr gervigrasvöllur og byggð stúka vestan við íþróttahús KA. Það verður keppnisvöllur knattspyrnuliðs félagsins. Þá verður skipt um gervigras á vellinum sunnan við KA-heimilið. Fram kom í máli bæjarfulltrúa í gær að Akureyrarvallarsvæðið við Glerárgötu væri mjög verðmætt byggingarland og mjög gott til þéttingu byggðar. Upplýst var að verðmæti byggingarlandsins væri talið á bilinu 600 milljónir til 1,9 milljarða skv. útreikningum skipulagsstjóra bæjarins.

Sundlaug Akureyrar - innilaug
2022 - 10 milljónir
2023 - 100 milljónir
2024 - 100 milljónir

  • Eva Hrund Einarsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður frístundaráðs, sagði ástand innilaugarinnar, sem notuð er sem kennslulaug, mun verra en talið hefði verið og verkefnið því sett í forgang.

Ráðhús
2022 - 50 milljónir
2023 - 300 milljónir
2024 - 600 milljónir
2025 - 800 milljónir

  • Öll stjórnsýsla sveitarfélagsins verður á einum stað eftir stækkun og endurbætur Ráðhússins. Fram kom á fundinum í gær að vissulega væru miklir fjármunir settir í verkefnið á næstu árum en það myndi spara bænum fé til lengri tíma.