Fara í efni
Fréttir

Rachael í USA: 100 dagar af vitfirringu

Rachael Lorna Johnstone í Bandaríkjunum, þar sem hún átti að starfa í þrjá mánuði við rannsóknir, áður en stofnuninni sem hún starfaði við var lokað eftir tilskipun forsetans. Mynd: aðsend
Rachael Lorna Johnstone, prófessor hjá lagadeild Háskólans á Akureyri, er um þessar mundir í eins árs rannsóknarleyfi við HA. Hún er að sinna spennandi verkefni, þar sem hún fékk eftirsóttan styrk frá Fulbright til þess að vera í alþjóðlegum vinnuhópi um loftslagsbreytingar og auðlindir á Norðurslóðum. Hluti verkefnisins var að eyða þremur mánuðum í Wilson stofnuninni, Polar institute, í Washington DC, við rannsóknir. En Rachael þurfti að koma snemma heim vegna þess að tilskipun nýs forseta Bandaríkjanna varð til þess að stofnuninni var lokað.
 
    • Rachael fylgdist með atburðum í nýrri forsetatíð Trumps í beinni útsendingu og hélt dagbók sem hún kallar „100 Days of Batshittery“ (100 dagar af vitfirringu). Hún ætlar að halda opið erindi í Háskólanum á Akureyri föstudaginn, 2. maí, þar sem hún segir frá dvöl sinni í Bandaríkjunum á þessum tíma á Lögfræðitorgi. Viðburðinum verður líka streymt, en hann verður ekki tekinn upp.
    • Hér má lesa viðtalið við Rachael á Akureyri.net um upphaf verkefnisins.

 

„28. janúar kom tilskipun frá forsetanum um að stoppa allt fjármagn til stofnunarinnar, en flugið mitt út var daginn eftir, 29. janúar,“ segir Rachael við blaðamann Akureyri.net. „Ég var því svolítið óviss þarna, en dreif mig af stað.“ Þetta var upphafið að rannsóknardvöl Rachael í Bandaríkjunum sem átti heldur betur eftir að vera óvenjuleg og ófyrirsjáanleg. Kannski ekki ósvipuð stemning og almennt einkennir forsetatíð Donalds Trump hingað til, en áhrif hans tilviljanakenndu stjórnarhátta eru gríðarleg. Saga Rachael er ein af óteljandi sögum fólks sem hefur fundið þessi áhrif á eigin skinni.

Gat hafið störf, en mátti ekki tala um það

Rachael segir að sunnudaginn 2. febrúar hafi DOGE (stofnun sem nýi forsetinn kom á laggirnar, ætluð til að stýra sparnaðaraðgerðum ríkisútgjalda Bandaríkjanna) komið inn í USAID*, tekið yfir alla gagnagrunna þeirra og yfirstjórn sett í leyfi, en þau eru staðsett í sömu byggingu og Wilson stofnun í miðbæ Washington. Síðar voru svo allir starfsmenn settir í leyfi. Rachael átti að mæta fyrst til starfa og til að hitta samstarfsfólk á mánudeginum 3. febrúar, en var að vonum óviss með aðstæður. „Ég gat hafið störf, en það voru skýr skilaboð um að við ættum að passa okkur og sleppa því að tjá okkur opinberlega um aðstæður í byggingunni eða um starfsemina.“

*Það vakti mikla athygli á heimsvísu þegar USAID var lokað, en þar var í raun verið að binda endi á sex áratuga starfsemi stofnunarinnar við alþjóðlega þróun og mannúðaraðstoð á fjölmörgum stöðum í heiminum. Ótal ríkisstofnanir hafa lent á höggstokki DOGE, og því skiljanlegt að starfsfólk hafi viljað reyna að halda verkefnum sínum undir radarnum, hrædd um að fara sömu leið.

 

T.v. Rachael fyrir framan Wilson stofnunina. T.h. Mynd sem var sett á opinberan Instagram reikning Hvíta hússins á meðan Rachael var úti, og sýnir firringuna sem hún talar um ágætlega. Myndir úr einkasafni Rachael.

Rannsóknarefnið ekki upp á pallborðinu lengur

Rachael hóf störf eins og til stóð, en það setti óneitanlega sinn svip á verkefnið, að staðan væri svona og óvissa í loftinu. „Rannsóknir mínar fjalla einmitt um hluti, sem skyndilega voru komnir á einhverja bannlista í Bandaríkjunum,“ segir hún. „Kvenréttindi, réttur frumbyggja, loftslagsbreytingar og réttlát umskipti. Þessi orð voru ekki lengur gjaldgeng. Ég reyndi að einbeita mér bara að því að vinna að mínum rannsóknum þrátt fyrir það og var mest bara ein.“

„14. mars kom svo ný tilskipun frá forsetanum,“ segir Rachael. „Þar kvað á um að Wilson-stofnun ætti að draga saman seglin. Bandarísk lög um þessa tilteknu ríkisstofnun, eins og margar aðrar, hindra forsetann í því að einfaldlega skella í lás. Wilson-stofnun ber lagaleg skylda til þriggja atriða. Í fyrsta lagi að halda bóksafn, í öðru lagi að halda minningu Woodrow Wilson forseta á lofti og í þriðja lagi að hafa rannsóknarfólk að störfum (í fleirtölu). Þegar þarna var komið sögu fengum við skýr skilaboð um að tala ekki við neinn um starfsemina. Yfirmenn vildu forðast það eins og þau gátu að kastljósinu yrði beint að þeirra störfum, til þess að freista þess að fá að halda áfram óáreitt.“

 

17. mars, fyrsta vinnudag eftir nýja tilskipun forsetans, var búið að fjarlægja myndir af fólki sem forsetanum líkar ekki persónulega við. T.d. ýmsir Demókratar, Justin Trudeau o.fl. Mynd úr einkasafni Rachael.

DOGE lokar Wilson stofnun eftir heimsókn

Næst dró til tíðinda þann 1. apríl. „Þá mætti ég á skrifstofuna og komst að því að DOGE voru mætt í heimsókn.“ segir Rachael. „Ég vildi ekki vera á staðnum, þar sem ég vildi alls ekki lenda í neinum vandræðum. Ég var þarna á rannsóknardvalarleyfi og hafði engan áhuga á því að hitta þetta fólk. Sólarhring eftir að þau höfðu verið á svæðinu var það orðið skýrt að þau ætluðu sér að loka stofnuninni. Ég gæti ekki komið aftur. Þremur dögum síðar var allt starfsfólk sett í leyfi, sem er fyrsta skrefið að því að reka það. Öll nema fimm, til þess að uppfylla lögin sem ég nefndi áðan - að það verði að hafa fólk að rannsóknarstörfum í stofnuninni.“ 

Ég veit um fólk í svipaðri stöðu, sem var jafnvel handtekið

„Það var Fulbright sem gaf út dvalarleyfið mitt, ekki Wilson stofnun,“ segir Rachael. „En ég þarf að hafa rannsóknarstað, til þess að leyfið sé gilt, og þarna var ég búin að missa staðinn. Ég hugsaði að það væri ekkert mál, þar sem ég hef í raun 30 daga til þess að yfirgefa landið eftir að leyfið mitt rennur út, það kallast 'grace period'. En vandamálið með þann tíma, er sá að þá má maður ekkert vinna. Ekki neitt. Ég ætlaði að mæta á tvær ráðstefnur til dæmis, sem ég mátti í raun ekki gera. Ég mátti ekki einu sinni halda rafrænan fund um verkefnið mitt.“ Rachael segir að hún hafi svosem ekki reiknað með að einhver væri að fylgjast með ferðum hennar persónulega, en henni þótti þetta ekki vera rétti tíminn til þess að brjóta reglur af neinu tagi í Bandaríkjunum.

„Ég var búin að lesa fréttir af fólki sem var á sambærilegu dvalarleyfi og ég í landinu, sem lenti í miklum erfiðleikum,“ segir Rachael, en hún hafði hugsað með sér, að það versta sem gæti gerst væri að hún myndi missa dvalarleyfið og yrði send heim. „Svo læddist að mér að það væri kannski í rauninni ekki þannig. Að það gæti sannarlega orðið verra. Ég veit um fólk í svipaðri stöðu, sem var jafnvel handtekið og er ennþá að bíða eftir að komast heim aftur.“

Þöggunin áþreifanleg

„Heilt yfir, þá fannst mér skrítið, hvað fólk talaði lítið um ástandið,“ segir Rachael, aðspurð um það hvernig fólkinu sem hún var að vinna með leið. Fólki sem kannski hafði unnið þarna lengi og sá fram á ævistarfið í hættu. Hún segir að fólk hafi rætt saman á kaffistofunni, en það var lítið líka. „Það var bannað að tala við fjölmiðla og ennþá er það mjög lítið í fréttum, hvernig fólki líður. Ennþá hef ég til dæmis ekki fundið neinar fréttir eða upplýsingar um stöðuna í Wilson-stofnuninni. Fólk þorir ekki að tala. Í Dómsmálaráðuneytinu er starfsfólk sett í lygamæla og allskonar próf til þess að kanna hversu hlýðið það er. Það er verið að leita að fólki sem talar, eða lekur því út hvernig staðan er.“

Rachael er fegin að vera komin aftur heim, án þess að lenda í teljanlegum vandræðum, en auðvitað var hugmyndin um þetta verkefni allt önnur, þegar hún fékk styrkinn fyrir tæpu ári síðan. „Ég gat ekki sinnt rannsóknum mínum eins og ég vildi gera,“ segir hún. „Ég var mest bara ein, gat alveg spjallað aðeins við aðra en það voru engir viðburðir haldnir eins og við ætluðum að gera. Það kom bara ekki til greina. Ég greip samt öll tækifæri sem ég gat til þess að nýta ferðina, ég fór á Smithsonian safnið, fór til New York og hélt erindi við City University of New York og University í Rhode Island, sem dæmi. Ég held svo áfram þessu Fulbright verkefni hérna heima,“ segir Rachael að lokum.


Áhugasöm um að heyra meira um upplifun Rachael er bent á lögfræðitorg Háskólans á Akureyri, þar sem hún heldur erindið Hundrað dagar bandaríkjaforseta á forsetastóli á föstudaginn kemur, kl. 12.00-13.00 á stað og í streymi.
 

Rachael nýtti ferðina eins og hún gat, þrátt fyrir ástandið og náði að halda erindi í New York og Rhode Island, auk þess að heimsækja Smithsonian safnið. Mynd úr einkasafni Rachael.