Fara í efni
Fréttir

Húsið verður bylting fyrir siglingamenn

Mynd: AVH ehf arkitektúr verkfræði hönnun
Mynd: AVH ehf arkitektúr verkfræði hönnun

„Við höfum beðið lengi eftir þessu. Ég hef verið í klúbbnum síðan 1983, þegar ég var 12 ára, og þá voru menn að bíða eftir betri aðstöðu,“ segir Tryggvi Jóhann Heimisson, formaður siglingaklúbbsins Nökkva við Akureyri.net, en langþráðar framkvæmdir standa yfir á svæði klúbbins við Höepfnersbryggju. Stefnt er að því að næsta sumar verði tilbúið glæsilegt hús sem gjörbreyta mun aðstöðu siglingamanna bæjarins.

„Þetta verður algjör bylting í starfsemi klúbbsins. Við fáum alvöru búningsaðstöðu, og það verður sú breyting sem iðkendur munu finna lang mest fyrir. Í stað lítilla búningsklefa með tveimur sturtum verður mjög flott búningsaðstaða, einir níu einmenningsklefar; ekki hefðbundir karla- og kvennaklefar heldur er komið fyrst inn í almennt rými og svo fer hver og einn inn í klefa, sem er nýjung í opinberum húsum sem þessu.“

Tryggvi segir að aðstaða fyrir starfsmenn gjörbreytist ásamt viðgerða- og viðhaldsaðstöðu og húsið er að auki miklum mun stærra en litlu húsin tvö, sem Nökkvamenn hafa haft til umráða. „Við erum fyrir löngu komin yfir þolmörk þar, þar eru iðulega tugir barna á hverjum degi í miklum þrengslum en dæmið gekk upp á meðan veðrið var gott og allir gátu verið á sjó. En það hallaði mjög fjótt undan fæti þegar veðrið versnaði.“

Formaðurinn nefnir að loks megi segja að hægt verði að reka félagsstarf allt árið. „Nýja húsið verður upphitað, bæði geymsluaðstaða og verkstæði, þannig að nú getum við unnið að viðgerðum báta allan veturinn. Við höfum stundum verið í því út júní að gera við báta, þegar allir vildu löngu vera byrjaðir að sinna siglingum. Yfir veturinn var of kalt til að standa í viðgerðum.“

Samkvæmt skipulagi munu gömlu húsin tvö á svæðinu víkja. „Það hefur ekki verið rætt við bæinn en ég geri ráð fyrir því að gömlu húsin standi þangað til bærinn verður búinn að byggja annan áfanga nýja hússins; gert er ráð fyrir tæplega 150 fermetrum í viðbót, félagsaðstöðu og kennslurými.“

Tryggvi segir að aðstaðan í húsinu nýja muni nýtast fleirum en siglingamönnum. Sjósundsfólk muni til dæmis örugglega geta nýtt sér búningsaðstöðuna, svo og róðrabrettafyrirtækin tvö sem starfa í bænum. „Við reynum að aðstoða alla sem eru frumkvöðlar í sjósporti,“ segir Tryggvi Jóhann Heimisson.

Það er fyrirtækið AVH ehf arkitektúr verkfræði hönnun sem hannar hið nýja hús siglingaklúbbsins. Byggingaverktakinn Sigurgeir Svavarsson sér um smíðina.

Fyrstu skóflustungurnar! Þremenningarnir, sem stóðu að stofnun Nökkva (sem hét reyndar fyrst Sjóferðafélag Akureyrar) haustið 1963, með skóflurnar á lofti 10. maí 2013. Frá vinstri: Gunnar Árnason, sem var fyrsti formaðurinn, Dúi Eðvaldsson og Hermann Sigtryggsson. Fyrir aftan þá er Rúnar Þór Björnsson, sem er nýlega hættur sem formaður Nökkva eftir hátt í tvo í áratugi í embætti. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.