Fara í efni
Fréttir

Póstboxum fjölgar á Norðausturlandi

Ljósmynd: Pósturinn

Nýjum póstboxum hefur verið komið fyrir á Akureyri, þar sem þau er nú orðin fjögur talsins. Einnig hafa verið sett upp póstbox á Laugum, Vopnafirði og Dalvík. 

„Við höfum unnið hörðum höndum að því að finna stað fyrir öll nýju póstboxin okkar. Um leið og við finnum heppilega staðsetningu er strax hafist handa við að setja póstboxin upp. Við höfum komið upp fjórum póstboxum á Norður- og Norðausturlandi síðastliðnar vikur. Svo vorum við líka að stækka póstboxið á Húsavík,“ segir Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa hjá Póstinum í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Alltaf opin og hægt að senda pakka

„Póstboxin okkar eru alltaf opin svo fólk getur sótt pakkana þegar því hentar. Einnig er hægt að senda pakka með því að nota póstboxin okkar. Það er gert í örfáum skrefum. Þú skráir pakkann á posturinn.is og færð strikamerki, skutlast í næsta póstbox þar sem þú prentar út miða og límir á pakkann og stingur svo pakkanum inn í hólfið. Við sjáum svo um rest,“ segir Kjartan.

„Við hvetjum alla til þess að prófa að nota póstboxin til að sækja pakka og senda. Það hefur sýnt sig að það var mikil þörf á þessari þjónustu en það eru einmitt þeir viðskiptavinir Póstsins sem nota póstbox sem eru hvað ánægðastir,“ segir Kjartan.