Fara í efni
Fréttir

Plokkdagur ætti að vera alla daga

Jónína Ketilsdóttir með plokkstöngina og pokann í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Jónína Ketilsdóttir með plokkstöngina og pokann í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Landsmenn eru hvattir til þess að tína upp rusl í dag - plokka - á Stóra plokkdeginum, sem nú er haldinn formlega í fjórða skipti. Miðað við óvísindalega könnun Akureyri.net í morgun verður að nefna hann Litla plokkdaginn enn sem komið er. Fáir voru á ferð með plokkstöng og poka en fjölmargir hjólandi og hlaupandi, enda veðrið eins og best verður á kosið. Vonandi flestir að hita upp fyrir plokk eftir hádegi.

Jónína Ketilsdóttir var með plokkstöngina og stóran poka á mótum Skarðshlíðar og Höfðahlíðar þegar blaðamaður ræddi við hana og sagði af nógu að taka. Hún sagðist hafa tínt mjög mikið í fyrra en fannst allt of fáir taka þátt í verkefninu þá. Og nefndi að í raun ætti hver einasti dagur að vera plokkdagur; fólk þyrfti að hafa það í huga.

Elín Björg Ingólfsdóttir var nærri búin að fylla skottið á bílnum með ruslapokum eftir hálfa aðra klukkustund að störfum. Hún sagði leiðinlega mikið rusl í námunda við ýmis fyrirtæki, sem þyrftu að huga betur að því að hafa snyrtilegt.

Afrakstur plokksins má skilja eftir í sérstökum gámum við allar grenndarstöðvar um helgina. Ástæða er til þess að hvetja alla sem vettlingi geta valdið til að plokka í góða veðrinu í dag. Hreinn bær er fallegri en óhreinn; best væri þó vitaskuld að plokkdagur væri óþarfur. Andlitsgrímur og alls kyns annað rusl stekkur ekki af sjálfsdáðum út um bæinn ...

Elín Björg Ingólfsdóttir í plokkham í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hluti „uppskeru“ Elínar Bjargar í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.