Fara í efni
Fréttir

Pétur Pan lenti á Akureyrarflugvelli!

Þota Transavia lendir á Akureyrarflugvelli í morgun. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Margir þekkja sögupersónuna Pétur Pan úr ævintýrum skoska rithöfundarins J.M. Barrie. Pétur, sem býr í Hvergilandi, er gæddur þeim hæfileika að geta flogið sem getur án efa komið sér vel. Pétur Pan kom fljúgandi inn Eyjafjörðinn í morgun og lenti á Akureyrarflugvelli; þó ekki áðurnefnd sögupersóna heldur þota á vegum flugfélagsins Transavia með 125 farþega frá Amsterdam. Með vélinni fóru síðan um 90 farþegar út. 

Transavia hóf að fljúga til Akureyrar á ný fyrr í þessum mánuði fyrir hollensku ferðaskrifstofuna Voigt Travel. Flogið er tvisvar í viku en síðasta ferðin til Akureyrar að sinni verður mánudaginn 14. mars.