Fara í efni
Fréttir

Pálmi Stefánsson tónlistarmaður látinn

Pálmi Stefánsson tónlistarmaður á Akureyri er látinn, 84 ára að aldri. Hann var fæddur 3. september 1936 að Litlu Hámundarstöðum á Árskógsströnd og lést á Akureyri á fimmtudaginn, 15. júlí.

Pálmi hóf ungur að spila á harmoniku og byrjaði á barnsaldri að leika fyrir dansi á skemmtunum í sinni heimasveit. Eftir að Pálmi flutti til Akureyrar stofnaði hann hljómsveit í eigin nafni og síðar hljómsveitina Póló sem hann starfrækti árum saman.

Árið 1966 stofnaði Pálmi Tónabúðina, sem hann var gjarnan kenndur við. Þar voru seld hljómplötur, hljóðfæri, hljómtæki og fleira tengt tónlist, og síðar sjónvörp um tíma. Verslunina rak Pálmi í rúmlega fjóra áratugi, seldi hana í október 2007 en hafði opnað útibú í Reykjavík 2004.

Ári eftir að Tónabúðin var sett á laggirnar komu Pálmi og viðskiptafélagi hans Tónaútgáfunni á fót, settu upp hljóðver á Akureyri og gáfu út um 60 hljómplötur á einum og hálfum áratug. Ekki voru þær allar teknar upp á Akureyri, til dæmis gaf Tónaútgáfan út þá goðsagnakenndu plötu Lifun með hljómsveitinni Trúbrot og fyrstu plötu Björgvins Halldórssonar, Þó líði ár og öld, sem báðar voru hljóðritaðar í London.

Pálmi Stefánsson var virkur í tónlistarlífinu í um það bil 70 ár. Mörg síðustu ár lék hann reglulega fyrir eldri borgara á Akureyri ásamt félögum sínum, til dæmis á dvalarheimilinu Lögmannshlíð.

Eftirlifandi eiginkona Pálma er Soffía Kristín Jónsdóttir. Börn þeirra þrjú eru Haukur, Björk og Anna Berglind.