Fara í efni
Fréttir

Pálmi Óskarsson til Heilsuverndar

Jón Pálmi Óskarsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, hefur verið ráðinn til fyrirtækisins Heilsuverndar - Heilsugæslu sem rekur bæði hjúkrunarheimilin á Akureyri, Hlíð og Lögmannshlíð, fyrir Sjúktryggingar. 

Pálmi hættir þó ekki störfum á sjúkrahúsinu verður í hlutastarfi þar og hjá Heilsuvernd á Akureyri. Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar í Kópavogi, stefnir að því að koma á fót einkarekinni heilsugæslustöð á Akureyri.

„Pálmi hefur þegar hafið störf og bætist þannig í hóp öflugra lækna hjá okkur á Akureyri. Hann mun halda áfram störfum við Sjúkrahúsið á Akureyri, en við stefnum að áframhaldandi uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í höfuðstað [N]orðurlands,“ segir á Facebook síðu Heilsuverndar í kvöld.

Pálmi útskrifaðist úr læknisfræði frá Christian-Albrechts-Universität zu Kiel árið 2003. Hann er sérfræðingur í heimilislækningum frá árinu 2009 og varð sérfræðingur í bráðalækningum árið 2020.

„Hann starfaði sem heimilislæknir á Hvammstanga árin 2009-2010 og svo á heilsugæslunni á Akureyri frá 2010-2012. Þá hefur hann starfað á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri síðan 2012 og var forstöðulæknir bráðalækninga árin 2013-2014 og 2017-2023. Hann gegnir nú stöðu yfirlæknis á bráðamóttöku sjúkrahússins,“ segir í tilkynningunni á Facebook síðu Heilsuverndar.

Áður hafði Heilsuvernd tilkynnt um ráðningu tveggja lækna á Akureyri, Vals Helga Kristinssonar, fyrrverandi yfirlæknis á Heilsugæslustöðinni á Akureyri, og Guðrúnar Dóru Clarke, sem var heimislæknir á heilsugæslustöðinni.