Fara í efni
Fréttir

Páll í fremstu röð - þróaði tímamótaaðferð

Akureyringurinn Páll Ragnar Karlsson, Ph.D. í læknavísindum, var í vikunni útnefndur „rannsóknarmaður ársins“ hjá Dönsku sykursýkiakademíunni, DDA. Akademían veitir árlega tvenn verðlaun þeim sem hafa náð góðum árangri á sviði sykursýkirannsókna og hafa notið stuðnings DDA til rannsóknanna. Viðurkenn­ingunni fylgdu verðlaun, 25.000 danskar krónur, jafnvirði um 500 þúsund íslenskra króna. Morgunblaðið greindi fyrst frá þessu.

Páll var heiðraður fyrir rannsóknir sínar á verkjum sykursjúkra. Hann varð fyrstur í Danmörku til að beita nýrri aðferð við töku og greiningu húðsýna sem geta sagt til um ástand tauga í húðinni. Í umfjöllun Morgunblaðsins í gær sagði að aðferðin geti valdið tímamótum.

Í fréttatilkynningu DDA sagði að sérfræðiþekking Páls skipi honum í fremstu röð vísindamanna sem stunda rannsóknir á þessu sviði í heiminum. DDA bendir á að ekki séu nema sjö ár síðan Páll varði Ph.D.-ritgerð sína og hann sé því á fyrsta áratug sínum sem vísindamaður við rannsóknir.Hann hefur starfað við Dönsku verkjarannsóknamiðstöðina í Árósum frá 2010 og þar gegnir aðferðin sem Páll þróaði veigamiklu hlutverki að sögn DDA.

Páll Ragnar er sonur hjónanna Karls Eskils Pálssonar og Jóhannu Hlínar Ragnarsdóttur. Hann gekk á sínum tíma í Glerárskóla og varð stúdent úr VMA.