Fara í efni
Fréttir

Páll Hólm stýrir Bjargi og bætist í hóp eigenda

Páll Hólm nýr framkvæmdastjóri Bjargs.

Páll Hólm hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri líkamsræktarinnar Bjargs og tekur við af Tryggva Kristjánssyni frá og með 1. september. Páll þekkir vel til Bjargs, hefur þjálfað þar síðustu ár ásamt því að hafa verið í stjórn félagsins, og að auki kemur Páll nú inn í eigendahópinn.

„Þetta leggst mjög vel í mig og má segja að þetta sé draumastarfið. Ég hef síðustu ár menntað mig í þjálfun og viðskiptafræði sem mun hvorutveggja nýtast mér vel í þessu starfi. Ég er spenntur fyrir því að halda áfram að hugsa vel um okkar frábæru kúnna ásamt því að bæta stöðina jafnt og þétt, þróa ný verkefni og vaxa í starfi,“ segir Páll á þessum tímamótum.

Tryggvi tekur í sama streng og segir ráðninguna flott skref að enn sterkara Bjargi. „Páll veit fyrir hvað Bjarg stendur og er mjög góð viðbót í eigendahópinn. Við viljum alltaf gera betur, erum opin fyrir nýjungum og viljum sinna okkar viðskiptavinum vel ásamt því að taka vel á móti nýjum. Við höfum lagt áherslu á heimilislegt andrúmsloft þar sem allir eru velkomnir til okkar og tel ég ráðningu og innkomu Páls vera flott skref fyrir Bjarg. Við erum spennt fyrir komandi tímum þar sem við munum halda áfram að byggja stöðina upp með því öllum þeim frábæru þjálfurum og starfsfólki sem eru á Bjargi.“

Þess má geta að opin vika verður á Bjargi 22. - 29. ágúst en þá gefst öllum tækifæri á að mæta á stöðina, bæði í hóptíma og tækjasal, án endurgjalds.