Fara í efni
Fréttir

Ótrúlegur bati – 3. stigs brunasár á 85% líkamans eftir sprengingu á Grenivík

Kinga Kleinschmidt á sjúkrahúsinu í Bergen í síðustu viku. Myndir frá TV2 í Noregi.

Kinga Kleinschmidt, 28 ára pólsk kona sem brenndist lífshættulega þegar sprenging varð í verksmiðju Pharmarctica á Grenivík í mars á síðasta ári, hefur náð undraverðum bata eftir fjölda aðgerða á sjúkrahúsi í Noregi.

Það var í lok vinnudags 23. mars 2022, þegar Kinga gáði hve mikið hreint bensín væri eftir í tunnu sem hún var að vinna með, að sprenging varð. Kinga fékk 3. stigs brunasár á 85% líkamans en læknum á brunadeild Haukeland háskólasjúkrahússins í Bergen hefur tekist hið ótrúlega og Kinga er komin á ról; hún er daglega hjá sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa og fer fljótlega heim til fjölskyldu sinnar á Íslandi.

Norska sjónvarpsstöðin TV2 fjallaði um Kleinschmidt um nýliðna helgi, bæði í sjónvarpi og á vef stöðvarinnar.

  • Rétt er að vara viðkvæma við myndefni með fréttinni og á vef TV2.

Yfirlæknir á deildinni segir í viðtali við sjónvarpsstöðina að Kinga hefði ólíklega lifað slys sem þetta af fyrir 10 til 15 árum en vegna þess hve vísindunum hefur fleygt fram hafi tekist jafn vel til og raun ber vitni.

Man hverja sekúndu

Kinga segist muna vel eftir slysinu. Skyndilega hafi bensínið sprungið í andlitið á henni og líkaminn allur logað í kjölfarið. Hún kveðst hafa hlaupið út og kastað sér í snjóskafl. Hún muni hverja sekúndu þar til hún missti meðvitund nokkrum mínútum síðar. „Svo vaknaði ég á sjúkrahúsi í Bergen – mánuði seinna!“ segir Kinga við TV2. Hún er full þakklætis og segir lækna hafa unnið ótrúlegt starf.

Ljósmynd TV2

Gekk betur en læknar þorðu að vona

Árangurinn er meiri en læknar þorðu að vona í fyrstu, segir Ragnvald Ljones Brekke, yfirlæknir á brunadeild Haukeland háskólasjúkrahússins. Hann hefur stjórnað krefjandi meðferð á Kinga síðustu 10 mánuði. Brekke segir hana verst slasaða sjúkling sem komið hefur á brunadeildina og lifað af.

Brekke segir miklu máli skipta hve fljótt læknar gátu hafist handa en Kinga var komin undir læknishendur í Bergen 26 klukkustundum eftir slysið.

Þegar svo mikill hluti húðarinnar er ónýtur segir Brekke gífurlega hættu á sýkingu og því sé nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til að vernda brenndu svæðin. Húð af látnum líffæragjöfum hafi verið notuð sem sárabindi til að byrja með.

Húð af hálsi Kinga var notuð til að búa til ný augnlok. Sömuleiðis var húð af hálsi og hársverði, sem var að hluta óskemmd, notuð til að græða andlit og enni.

Skjáskot af sjónvarpsumfjöllun TV2: „Þeir björguðu lífi mínu. Þeir hafa unnið frábært starf.“

Ræktuðu húð í Sviss

Mjög lítill hluti húðar Kinga var óskemmdur, hana var því ekki hægt að nota nema á litla fleti og ekki er mögulegt að nota húð af öðru fólki til frambúðar því líkaminn hafnar henni. Gervihúð var þar af leiðandi notuð á stóra hluta líkamans til að byrja með.

Lítill bútur húðar af hálsi Kinga – 2 x 3 cm – var sendur á rannsóknarstofu í Lausanne í Sviss þar sem ræktuð voru stór, þunn húðlög sem flogið var með til Noregs og notuð á handleggi og bak Kinga.

Þessi aðferð er aðeins notuð í sérstökum tilfellum því möguleikar á að hún heppnist er enn taldir takmarkaðir, að sögn Brekke yfirlæknis

„Hún hefur gífurlegan viljastyrk,“ segir Brekke. Sársaukinn hafi verið mjög mikill í fyrstu en Kinga hafi lagt hart að sér og strax verið staðráðin í að ná bata. Sjúkraþjálfari hennar dáist líka að stúlkunni. Fyrir tveimur mánuðum hafi hún þurft aðstoð við að komast fram úr rúminu en nú sé hún farin að gera æfingar og hlaupa.

Kinga Kleinschmidt fyrir slysið.

„Ætla mér að lifa eðlilegu lífi á ný“

TV2 fylgdist með Kinga á æfingu. „Það er svo gaman að hlaupa aftur. Það er erfitt en ég ætla mér að lifa eðlilegu lífi á ný,“ segir hún. Kinga dreymir um að ferðast og langar til að læra förðun. Hún muni þurfa á þeirri kunnáttu að halda.

„Kinga er ung kona með allt lífið framundan. Undanfarna mánuði hefur hún tekið ótrúlegum framförum og ég er ótrúlega ánægður,“ segir Brekke yfirlæknir. Mikil þjálfun sé framundan, segir hann, en til langs tíma litið séu henni allir vegir færir.

  • Smellið hér til að sjá umfjöllun á vef TV2