Fara í efni
Fréttir

Ósátt við frestun C álmu Glerárskóla

Glerárskóli, C álma, þar sem eru skrifstofur og aðstaða kennara. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Þrjú þeirra sem sitja í umhverfis- og mannvirkjaráði, Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista, Sindri Kristjánsson S-lista og Gunnar Már Gunnarsson B-lista eru ósátt við þá forgangsröðun meirihluta bæjarstjórnar að klára ekki framkvæmdir við Glerárskóla í einni lotu og lögðu fram bókun þess efnis á fundi ráðsins í byrjun júlí.

Á fundi ráðsins þann 4. júlí var lagt fram minnisblað vegna viðbótarframkvæmda í inngarði milli A og C álmu og samþykkti ráðið að óska eftir viðauka að upphæð 38,5 milljónir króna til bæjarráðs til að ljúka frágangi á honum samhliða framkvæmdum við A álmu. Kostnaður sem fellur til á þessu ári er áætlaður 30 milljónir og átta milljónir á næsta ári.


Glerárskóli, C álman til vinstri og A álman til hægri, viðauki við fjárhagsáætlun þessa árs og framkvæmdaáætlun næsta árs upp á 38 milljónir króna er vegna þessarar millibyggingar. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti á fundi sínum í morgun að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2023 í samræmi við samþykkt umhverfis- og mannvirkjaráðs vegna yfirstandandi árs, 30 milljónir króna, og vísar eftirstöðvum vegna viðbótarframkvæmda, átta milljónum króna, til framkvæmdaáætlunar 2024.

Áðurnefnd bókun fulltrúa minnihlutans í umhverfis- og mannvirkjaráði er ítrekun á fyrri málflutningi þeirra og er svohljóðandi: 

Undirrituð árétta þá skoðun sína sem áður hefur komið fram í umfjöllun ráðsins um þetta mál að þau eru andsnúin þeirri forgangsröðun meirihlutans í bæjarstjórn að klára ekki framkvæmdir við Glerárskóla í einni atrennu. Þar komi til bæði hagkvæmnissjónarmið og sjónarmið um velferð nemenda. Benda þau á að tvö ár, eða því sem nemur því hléi sem á að gera á framkvæmdum, er jafngildi 1/5 af skólagöngu grunnskólabarns. Það hefur því áhrif á upplifun barna af grunnskólagöngu sinni hvernig framkvæmdahraða og framkvæmdatíma er háttað.


Endurnýjun A álmu Glerárskóla er nú í fullum gangi. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Í bókun þremenninganna er vísað til framkvæmda við síðustu álmuna, C álmu, sem í dag hýsir skrifstofur og aðstöðu kennara, en áður hafa B og D álmur, þar sem eru kennslustofur, verið endurnýjaðar. Við hönnun A álmunnar var gert ráð fyrir að starfsmannaaðstaða flyttist á efri hæð hennar, auk þriggja kennslurýma og að öll verknámskennsla yrði þar á neðri hæðinni, sem í dag mætti kalla kjallara, en landið beggja megin álmunnar verður lækkað niður í gólfhæð neðri hæðarinnar. Auk þess hafa verið útfærðir garðar beggja megin álmunnar sem munu þá nýtast í leik og starfi skólans.

Samkvæmt minnisblaði frá 15. ágúst 2022 er horft til þess að þegar C álman verður tekin, en tímasetning á því hefur ekki verið ákveðin, verði það sem nú er aðstaða starfsfólks notað fyrir samkomusal/matsal og stoðrými tengt því starfi sem þar fer fram. Auk C álmunnar á svo eftir að hanna sameiginegt anddyri og tímasetja framkvæmdir við það.

gf
Tréverk ehf. átti lægra tilboðið í heildarendurnýjun A álmu Glerárskóla.

Framkvæmdir standa nú yfir við A álmuna, viðbyggingu á milli A og C álmu og garða umhverfis álmuna. Jana Salóme segir bókunina til komna vegna þess að framkvæmdum við C álmuna hafi verið frestað um nokkur ár við gerð síðustu fjárhagsáætlunar, en ekki farið í að klára endurbætur á henni strax í kjölfar A álmunnar.

Heildarkostnaður við það verk sem nú stendur yfir var áætlaður um 900 milljónir króna. Tvö fyrirtæki buðu í verkið og voru tilboð opnuð í ágúst í fyrra. Tréverk ehf. átti lægra boðið, rúmar 757 milljónir, en ÁK smíði bauð í verkið fyrir rúmar 914 milljónir króna.