Fara í efni
Fréttir

Öryggi „ekki ógnað“, áfram sama verklag

Öryggi „ekki ógnað“, áfram sama verklag

Framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) telur að hjúkrunarfræðingar á barnadeild stofnunarinnar vegi að starfsheiðri starfsmanna stofnunarinnar í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér fyrir helgi. Framkvæmdastjórn telur öryggi sjúklinga og starfsmanna ekki ógnað, eins og hjúkrunarfræðingarnir héldu fram, og segja að áfram verði unnið samkvæmt sömu verklagsreglu og hingað til, „fram á haustið eða þar til önnur lausn er í sjónmáli.“

 

Yfirlýsing framkvæmdastjórnar Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), sem birt var á Facebook síðu stofnunarinnar í dag, er svohljóðandi:

„Hjúkrunarfræðingar á barnadeild SAk sendu fyrir helgi ítarlega yfirlýsingu til framkvæmdastjórnar sjúkrahússins, heilbrigðisráðuneytis og helstu fjölmiðla landsins þar sem þeir telja legu fullorðinna sjúklinga á barnadeild ógna öryggi sjúklinga og starfsmanna en stuðst hefur verið við gildandi verklag við flutning sjúklinga milli deilda. Í yfirlýsingunni kemur fram mikil gagnrýni á framkvæmdastjórn og samstarfsfólk, bæði hjúkrunarfræðinga og lækna.

Framkvæmdastjórn telur öryggi sjúklinga og starfsmanna ekki ógnað þrátt fyrir mikið álag og þykir miður að vegið sé að starfsheiðri þeirra góðu starfsmanna sem starfa á sjúkrahúsinu. Það er mat framkvæmdastjórnar að starfsmenn starfi af heilindum og ávallt með öryggi og velferð sinna sjúklinga að leiðarljósi.

Framkvæmdastjórn hefur fundað með forstöðuhjúkrunarfræðingum þeirra eininga sem um ræðir og farið yfir stöðuna. Innlagnir fullorðinna á barnadeild lúta vel ígrundaðri verklagsreglu sem tekur á dvöl og flutningi sjúklinga milli deilda. Sameiginleg niðurstaða stjórnenda er sú að áfram verður unnið eftir umræddri verklagsreglu fram á haustið eða þar til önnur lausn er í sjónmáli. Ljóst er að vinna þarf að lausn vandans til framtíðar hvað varðar flæði sjúklinga, yfirfullar deildir og mönnun og munu stjórnendur taka höndum saman hvað það varðar.“