Fara í efni
Fréttir

Öryggi allra tekið alvarlega í prófatíð

Öryggi allra tekið alvarlega í prófatíð

Rektor Háskólans á Akureyri segir skipulag prófa í vor falla vel innan sóttvarnarreglna. Í upphafi misseris hafi verið tekin ákvörðun um að próf yrðu haldin samkvæmt kennsluáætlun hvers námskeiðis, sú áætlun hafi haldið og ákvörðun ekki verið breytt. Núverandi sóttvarnarreglur leyfi deildum að halda áfram með upprunalegu áætlanir.

Þetta kemur fram í svari Eyjólfs Guðmundssonar, rektors HA, til formanns stúdentaráðs við bréfi frá ráðinu þar sem skólayfirvöld voru brýnd til þess að tryggja öryggi nemenda í prófatíð.

Fjölmargir prófstaðir

Nemendur í viðskiptafræði við HA eru mjög ósáttir við að lokapróf fari fram í húsnæði skólans og undirskriftasöfnun var sett af stað þar sem skorað er á yfirvöld skólans að halda fjarpróf. Ljóst er að ákvörðun skólans verður ekki breytt og rétt að taka fram að ekki þurfa allir nemendur að koma til Akureyrar í því skyni að þreyta próf. Þess er kostur á 20 stöðum víðs vegar um land og erlendis hafa nemendur þreytt próf í sendiráðum og skólum.

„Háskólinn á Akureyri tekur öryggi nemenda og starfsfólks mjög alvarlega og myndi aldrei stefna nemendum til próftöku á staðnum nema við teldum að slíkt væri öruggt og innan þeirra sóttvarnarreglna sem í gildi eru hverju sinni,“ segir rektor í áðurnefndu bréfi. „Ein af þeim leiðum sem notaðar eru til þess að minnka þörf fyrir staðarpróf er að nota fjölbreytt námsmat í námskeiðum. Á vormisseri 2021 eru 208 námskeið. Af þeim eru einungis 50 með próf á prófstað á væntanlegu prófatímabili eða 24% allra námskeiða. Fyrir önnur námskeið þá ljúka um 76% þeirra námsmati með öðrum hætti, yfirleitt símati eða heimaprófi.“

Eyjólfur segir mat á þörf fyrir staðpróf sem hluta af námsmati fyrst og fremst koma frá deildum og umsjónarkennurum viðkomandi námskeiða. Hægt sé að fá rökstuðning fyrir ákvörðunum með því að hafa samband við deildarformann viðkomandi deildar.

Ástandið erfitt fyrir alla

„Samkvæmt reglum Háskólans á Akureyri eru deildir sjálfstæðar þegar kemur að ákvörðunum um einstaka þætti námsmats og innihald náms eða námskeiða. Því er ekki hægt að tryggja heildarsamræmi á milli allra námskeiða við Háskólann á Akureyri nema þegar kemur að framkvæmd slíks námsmats innan prófareglna skólans á hverjum tíma. Þannig ná prófareglur til þátta er tengjast framkvæmd á staðprófi en ekki hvort að próf skuli vera staðprófi eða heimapróf. Nemendur sem af læknisfræðilegum ástæðum geta ekki mætt á prófstað munu nú, eins og áður, geta sótt um undanþágur samkvæmt leiðbeiningum sem koma frá prófstjóra.“

Rektor kveðst geta staðfest að skipulag prófa miðað við fjölda staðprófa falli vel innan sóttvarnareglna. „Miðað við reynslu af prófahaldi í desember síðastliðnum er skólinn vel í stakk búinn til að skipuleggja prófahald með öruggum hætti fyrir bæði nemendur og starfsfólk þar sem nemendafjöldi í hverju sóttvarnarhólfi verður innan marka um 50 nemendur og samskipti milli hólfa verða innan þeirra reglna sem gilda um sóttvarnir í háskólum samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðuneytisins.

Það óvissuástand sem við búum við er erfitt fyrir alla aðila. Í upphafi misseris var tekin ákvörðun um að próf yrðu haldin samkvæmt kennsluáætlun hvers námskeiðs þar sem ýmist yrði notað við staðpróf, heimapróf eða símat. Sú áætlun hefur haldið og þeirri ákvörðun hefur ekki verið breytt. Núverandi sóttvarnarreglur leyfa deildum að halda áfram með sínar upprunalegu áætlanir. Því hefur ekkert í raun breyst varðandi fyrri ákvarðanir og er það von mín að núverandi sóttvarnarráðstafanir muni gilda áfram þannig að ekki verði um neinar breytingar að ræða fyrir komandi prófatíð. Ég minni þó á að á endanum er það staðan í fjölda smita og sóttvarnarreglugerðir sem ákvarða hvað hægt er að gera á hverjum tíma. Við þurfum því öll að vera reiðubúin að breytingar eigi sér stað með skömmum fyrirvara líkt og við upplifðum rétt fyrir páska þegar gripið var til strangra sóttvarnaraðgerða til að koma í veg fyrir að ný bylgja myndi vaxa hratt.“ 

Smelltu hér til að lesa fréttina um óánægju nemenda