Fara í efni
Fréttir

Öruggt hjá Þór gegn Sindra á Hornafirði

Baldur örn Jóhannesson og félagar unnu sanngjarnan sigur á Sindra á Hornafirði í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu öruggan sigur á Sindra, 89:98, á Hornafirði í gærkvöldi í 1. deild karla í körfubolta. Gestirnir náðu góðri forystu strax í fyrsta leikhluta og létu hana aldrei af hendi. Þetta var fimmti sigur Þórs í röð.

  • Skorið eftir leikhlutum: 20:32 – 19:22 – 39:54 – 26:27 – 24:17 – 89:98

Eins og sjá má munaði 12 stigum eftir fyrsta leikhlutann og 15 stigum í hálfleik. Heimamenn löguðu stöðuna aðeins í fjórða og síðasta leikhluta en ógnuðu aldrei sigri Þórsara.

Þór og Þróttur úr Vogum hafa bæði unnið 10, en sunnanmenn búa að betri árangri í leikjum þessara liða í vetur og teljast því í 6. sæti deildarinnar en Þórsarar eru í 7. sæti. Enn er möguleiki á að Þórsliðið náði 5. sætinu; liðin í 2. til 9. sæti taka þátt í úrslitakeppni um annað laust sæti og 5. sæti er því það síðasta sem gefur heimaleikjarétt. Sigra þarf í þremur leikjum til þess að komast áfram í keppninni og komi til oddaleiks – þess fimmta – fer hann fram á heimavelli liðsins sem endaði ofar á stigatöflunni í deildarkeppninni.

Helsta tölfræði Þórsara; stig, fráköst, stoðsendingar:

Jason Gigliotti 26/11/5, Harrison Butler 21/5/2, Reynir Róbertsson 16/5/5, Baldur Örn Jóhannesson 15/5/4, Smári Jónsson 10/1/1, Andri Már Jóhannesson 6/0/1, Páll Nóel Hjálmarsson 3/2/0, Sigurjón Guðgeirsson Hjarðar 1/0/0.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.