Fara í efni
Fréttir

Öruggt hjá Blikum gegn „Stelpunum okkar“

Karitas Tómasdóttir (17) kemur Breiðabliki í 3:0 eftir hornspyrnu þegar tæpur klukkutími var liðinn. Hulda Björg og Ísfold Marý komu engum vörnum við frekar en aðrir leikmenn heimaliðsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði 4:0 fyrir Breiðabliki í dag í Bestu deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins, á Þórsvellinum (SaltPay vellinum). Stelpurnar okkar áttu litla möguleika gegn sterkum gestunum; eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik voru Blikarnir miklu sterkari í þeim seinni og aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi.

Clara Sigurðardóttir kom Breiðabliki í 1:0 strax á níundu mínútu. Leikmenn Þórs/KA léku undan nokkuð öflugri norðanátt í fyrri hálfleik, ógnuðu marki gestanna nokkrum sinnum en langar sendingar fram völlinn rötuðu þó oftar en ekki aftur fyrir endamörk. Fljótlega eftir mark Blika skallaði Hulda Ósk framhjá marki eftir góða fyrirgjöf Ísfoldar og litlu munaði að Þór/KA jafnaði skömmu síðar þegar skot breytti um stefnu af varnarmanni og fór rétt framhjá. Blikarnir fengu reyndar líka góð tækifæri til að skora en annað hvort varði Harpa eða boltinn fór framhjá.

Í seinni hálfleik tóku Blikarnir nær öll völd á vellinum; annað markið kom sex mínútum eftir að flautað var til leiks á ný, Karitas Tómasdóttir skoraði þá af stuttu færi eftir snögga sókn í kjölfar þess að Þór/KA missti boltann á miðjum velli, Karitas gerði annað mark sitt aðeins sjö mínútum síðar og Natasha Anasi gerði fjórða markið undir lokin.

10. umferðinni lýkur á morgun og síðan verður gert hlé á efstu deild Íslandsmóts kvenna þar til eftir Evrópumót landsliða sem fram fer í Englandi í næsta mánuði. Næsti leikur Þórs/KA er því ekki fyrr en 4. ágúst, gegn Val í Reykjavík.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Hér má  sjá stöðuna í deildinni