Örninn kaupir verslanir Sportvers og Útisports
Gengið hefur verið frá sölu á Sportveri ehf. til Arnarins í Reykjavík. Sportver rekur verslanirnar Sportver og Útisport á Glerártorgi. Örninn mun taka við rekstri verslananna um næstkomandi áramót.
Sportver fagnaði 30 ára afmæli fyrr á þessu ári, eins og akureyri.net greindi ítarlega frá í vor. Eigendur fyrirtækisins, hjónin Egill Einarsson og Berglind Tuliníus hafa nú selt reksturinn.
Egill segir í spjalli við akureyri.net að hringnum sé þá eiginlega lokað, því hann var verslunarstjóri í Erninum um nokkurra ára skeið áður en þau hjónin fluttu norður 1995 til að taka við rekstri Sportvers, ásamt Sigurði bróður Egils og eiginkonu hans Guðrúnu Elvu Stefánsdóttur. Frá árinu 2017 hafa Egill og Berglind rekið verslanirnar ein og nú er ekki nema rúmur mánuður í að þau sleppi hendinni af rekstrinum. Egill segir aðspurður að ekki sé ákveðið hvað taki við hjá þeim hjónunum um áramótin þegar Örninn tekur við rekstri verslananna.
Viðskiptavinir Sportvers í góðum höndum hjá Erninum ehf.
Örninn ehf. er rótgróið fjölskyldufyrirtæki og er m.a. með umboð fyrir Trek reiðhjól. Sportver er með umboð fyrir Giant hjólin, þannig að tvö af stærstu merkjunum í reiðhjólum verða þá komin undir sama þak. Að auki rekur Örninn golfverslunina Örninn Golf og barnavöruverslunina Fífu í Reykjavík og segir Egill því mikla möguleika fyrir Sportver að vaxa og dafna áfram.
Þau hjónin Egill og Linda vilja nota tækifærið og þakka öllum þeim tryggu viðskiptavinum sem verslað hafa við Sportver þau 30 ár sem þau hafa rekið fyrirtækið. „Um áramótin taka við nýir tímar hjá okkur en viðskiptavinir Sportvers verða í góðum höndum hjá nýjum eigendum. Einnig viljum við óska nýjum eigendum farsældar um ókomin ár,“ segir Egill að lokum.
Frétt akureyri.net frá síðastliðnu vori, í tilefni 30 ára afmælis Sportvers: