Orkusalan tekur við sölu rafmagns frá Fallorku
Fallorka á Akureyri, dótturfélag Norðurorku, tilkynnti í gær að félagið hætti sölu á rafmagni til heimila og fyrirtækja frá og með 1. janúar næstkomandi og muni beina starfsemi sinni eingöngu að framleiðslu á raforku. Ennfremur var tilkynnt að Orkusalan taki við sölu á rafmagni frá Fallorku.
„Fallorka heldur áfram að framleiða raforku í virkjunum sínum og Orkusalan kaupa alla raforku sem Akureyringar og aðrir Eyfirðingar munu áfram njóta,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að nauðsynlegt sé, vegna þessara breytinga, að skrá sig í viðskipti hjá nýjum seljenda rafmagns fyrir 10. desember og beint á að frekar upplýsingar um þessar breytingar, m.a. spurt og svarað, sé að finna á vefsíðunni fallorka.is og á vefsíðu Orkusölunnar orkusalan.is/fallorka.
Dótturfyrirtæki Rarik
Orkusalan er dótturfyrirtæki Rarik. Félagið var stofnað í mars 2006 í kjölfar breytingar á raforkulögum árið áður, þegar samkeppni var innleidd í raforkuframleiðslu og raforkusölu.
„Þann 1. júlí sl. gerðu Fallorka og Orkusalan með sér samning um að Orkusalan bjóði viðskiptavinum Fallorku þjónustu sína og selji þeim raforku á hagstæðum kjörum. Með því tryggir Fallorka að viðskiptavinir þeirra verði ekki fyrir óþægindum við þessar breytingar og hafi auðvelt aðgengi að söluaðila rafmagns,“ segir í tilkynningu frá Fallorku, þar sem viðskiptavinum er þökkuð samfylgdin í gegnum árin.
Þar segir einnig: „Það er einfalt að skrá sig í viðskipti hjá Orkusölunni, á www.orkusalan.is/velkomin. Einnig er hægt að hafa samband við þjónustuver í síma 422-1000 eða á netfangið orkusalan@orkusalan.is.“
Orkusalan framleiðir og selur rafmagn til heimila og fyrirtækja um allt land. Virkjanir Orkusölunnar eru 6 talsins, þar á meðal Skeiðsfossvirkjun á Norðurlandi og félagið rekur starfsstöð á Akureyri
Fulltrúar Orkusölunnar á Glerártorgi
- Á vef Orkusölunnar kemur fram að fulltrúar fyrirtækisins verði á Glerártorgi nokkra daga nú í nóvember, í fyrsta sinn í dag, til skrafs og ráðagerða, og bjóðist til þess að aðstoða fólk.
- Starfsmenn Orkusölunnar verða á Glerártorgi 11. til 13. nóvember og aftur 19. og 20. nóvember, á milli kl. 14.00 og 18.00.
Það var í september sem tilkynnt var að Orkusalan hefði keypt söluhluta við Fallorku. „Með kaupunum styrkir Orkusalan enn frekar starfsemi sína á Norðurlandi en Orkusalan er með öfluga skrifstofu á Akureyri og er ein af virkjunum fyrirtækisins jafnframt staðsett á svæðinu,“ sagði í tilkynningu
- Frétt akureyri.net í september: