Fara í efni
Fréttir

Orkey: Skúli Gunnar nýr framkvæmdastjóri

Orkey ehf. á Akureyri, sem sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti (lífdísil) og efnavöru úr notaðri matarolíu og fituúrgangi, hefur ráðið Skúla Gunnar Árnason í stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Hann tók við starfinu 18. ágúst síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkey.
 
„Skúli er vélaverkfræðingur með MSc gráðu frá Tækniháskólanum í Danmörku. Að námi loknu starfaði hann í rannsóknar-og þróunardeild Siemens Turbomachinery í Danmörku, síðar Howden Turbo sem yfirmaður deildarinnar. Hann hefur síðustu ár starfað sem forstöðumaður orkuskiptamála hjá Eimi, þar sem hann hefur leitt orkuskipta- og þróunarverkefnið RECET. Verkefnið miðar að því að styrkja getu sveitafélaga í dreifðum byggðum til orkuskipta og mótun orkuskiptaáætlana í samvinnu við atvinnulíf og hagsmunaaðila,“ segir í tilkynningunni.
 
„Umhverfismál og orkuskipti hafa alltaf verið mér hugleikin og því eru það alger forréttindi að taka til starfa hjá Orkey og halda áfram á þeirri braut,“ segir Skúli. Í tilkynningunni segir að ráðning hans endurspegli framtíðarsýn Orkeyjar um aukna áherslu á nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda til orkuskipta, í samræmi við loftslagsmarkmið Íslands.
 
„Markmið Orkeyjar er að auka framboðið á innlendu, sjálfbæru og kolefnishlutlausu eldsneyti og stuðla þannig að hraðari orkuskiptum í krefjandi geirum. Það er verðugt verkefni sem verður spennandi að takast á við,“ segir Skúli.