Fara í efni
Fréttir

Opna pitsustað og síðan EYR í stað Bryggjunnar

Pétur Jónsson veitingastjóri, til vinstri, og Sigurgeir Kristjánsson yfirkokkur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Nýr pitsustaður, Austur – pizza bar, verður opnaður í gamla Gránufélagshúsinu við Strandgötu þriðjudaginn 3. janúar. Hann verður í austursalnum á jarðhæð hússins. Eigandi er Róbert Häsler, sem rekur veitingahúsið Bryggjuna í sama húsi. Breytingar eru einnig í vændum þar; opið verður á Bryggjunni fram að áramótum en staðnum síðan lokað og nýr veitingastaður – EYR – opnaður í húsnæðinu miðvikudaginn 11. janúar.

Hátt í tvö ár eru síðan Pétur Jónsson veitingastjóri og Sigurgeir Kristjánsson yfirkokkur hófu störf á Bryggjunni og þeir segja staðinn hafa verið að þróast stöðugt síðan. Breytingarnar nú séu rökrætt framhald í því ferli.

„Við vorum til dæmis með mjög vinsælar pitsur á matseðlinum en vildum þróa þær enn lengra, tókum þær því af seðlinum í haust og stígum nú það skref að opna sérstakan pitsustað,“ segir Sigurgeir yfirkokkur við Akureyri.net. „Þetta verður flottur staður og pitsurnar í hæsta gæðaflokki; við höfum prófað okkar áfram með alls konar hráefni, bæði í sósuna og deigið, og erum mjög ánægðir með útkomuna.“

Pétur segir þá félaga ætla að búa til stemningu sem sé frábrugðin öðrum veitingastöðum bæjarins. „Áherslan verður auðvitað á frábærar pitsur og við munum líka leggja mikla áherslu á mjög góð vín og bjór. Útlitið og tónlistin verða líka öðru vísi en annars staðar,“ segir Pétur. 

EYR í stað Bryggjunnar

Miðvikudaginn 11. janúar verður veitingastaðurinn EYR opnaður þar sem Bryggjan er nú. Sigurgeir og Pétur segja það rökrætt framhald á því starfi sem unnið hefur verið undanfarin misseri, sem fyrr segir. „Bryggjan í dag er mjög frábrugðin því hvernig hún var fyrir tveimur árum,“ segir Sigurgeir. Hann svarar því til, þegar spurt er hvernig staður EYR verði, að þeir félagar vilji ekki festa sig í einhverjum sérstökum kassa. „Það á að vera skemmtileg upplifun að koma á EYR, áhersla verður á mjög góðan mat úr úrvals hráefni en við viljum vera frjálsir og geta leikið okkur!“

Pétur bætir við að þeir hafi báðir unnið á fínum veitingastöðum fyrir sunnan – það sem kallað er fine dining í bransanum. „Við þekkjum því fagmennskuna í matargerð og þjónustu og miðlum af reynslu okkar, bæði eldhúsinu og í salnum. Hér verður því allt mjög faglegt en við viljum að allt verði á léttu nótunum og andrúmsloftið afslappað.“