Fara í efni
Fréttir

Opinn fundur í kvöld um kirkjuna og lýðræði

Glerárkirkja á Akureyri.

Opinn fundur undir yfirskriftinni Kirkjan og lýðræði verður haldinn í Glerárkirkju í kvöld og hefst kl. 20. Þar verða almennar umræður og örerindi flytja Þórgnýr Dýrfjörð og Svavar Alfreð Jónsson.

Til fundarins boða kirkjuþingsfulltrúar Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastdæmis, Auður Thorberg, Jóhanna Gísladóttir og Stefán Magnússon en tilefnið er að fyrir kirkjuþingi liggja tillögur að breytingum kosninga til kirkjuþings, þar sem lagt er til að þær verði opnar öllum meðlimum þjóðkirkjunnar.

Kirkjan verði sjálfstæð

„Umræðan um lýðræði í kirkjunni er ekki ný af nálinni og það ferli sem við erum í núna og sér kannski fyrir endann á, kannski ekki, er að gera kirkjuna sjálfstæða,“ segir Auður Thorberg í grein sem akureyri.net birtir í dag. „Við verðum að þora að gera íslensku þjóðkirkjuna að lýðræðislegri stofnun. Stór hluti af því ferli er að hafa öflugt og trúverðugt kirkjuþing sem er lýðræðislega kosið og traustsins vert. Þar held ég að opnar kosningar séu partur af lausninni, þannig að allt þjóðkirkjufólk geti kosið sér fulltrúa úr sínu prófastdæmi til að sitja á kirkjuþingi, vígða og óvígða. Um leið og almennt þjóðkirkjufólk fær völd til að kjósa sér fulltrúa á kirkjuþingi finnur það til ábyrgðar á málefnum kirkjunnar sinnar. Það er eftirsóknarvert,“ segir Auður meðal annars.

Grein Auðar Thorberg: Lýðræðið og kirkjan