Fara í efni
Fréttir

Opið í 26 daga af 29 í febrúar – um 24.000 gestir

Við Strýtuskálann um síðustu helgi. Mynd: Þórgnýr Dýrfjörð.

Aðstæður til útiveru og skíðaiðkunar í Hlíðarfjalli voru með allra besta móti í febrúar. Skíðasvæðið var opið 26 daga af 29 með nægum snjó og veðrið oft og tíðum með allra besta móti. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

„Aðsóknin er búin að vera frábær enda hafa aðstæður boðið upp á það. Hingað komu í kringum 17.000 manns í vetrarfríum grunnskóla og hér voru færeyskir hópar tvær helgar,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður skíðasvæðisins.. Við höfum að auki fengið skólahópa alls staðar af landinu og að öllu samanlögðu voru gestir í Hlíðarfjalli rúmlega 24.000 manns í febrúar sem er með því betra sem þekkist.“

Opið lengur

Skíðasvæðið er nú opið klukkutíma lengur tvo daga í viku en tíðkast hefur. Á laugardögum er opið kl. 10.00 - 17.00 á og kl. 13.00 - 19.00 á fimmtudögum. Sjá nánar hér.

Nokkur snjóbráð hefur verið í hlýindum síðustu daga en þó er ennþá nægur snjór í Fjallinu og kaldari dagar fram undan. Páskahretið bregst aldrei og mun án efa færa okkur ríkulega nýja sendingu af góðum snjó, segir Brynjar Helgi.

Framundan eru páskarnir í lok mánaðarins og má búast við að þá liggi straumurinn norður til að fara í Fjallið og njóta tónleika og annarra viðburða á Akureyri.