Fara í efni
Fréttir

Ópal, bergkristall og jaspis við Hamarstíg

Emil og Patrekur Halldórssynir. Mynd: RH

Íþróttakrakkar og foreldrar þeirra eru í óða önn um þessar mundir í fjáröflun fyrir íþróttamót komandi sumars. Við sjáum mikið af klósettpappír, fiskibollum og allskonar varningi til sölu, gjarnan á Facebook síðum foreldranna. Emil, 13 ára, og Patrekur 9 ára eru Halldórssynir og búa í Hamarstíg með foreldrum sínum, litla bróðurnum Felix og kisunni Mosa. Þeir eru með svolítið óvenjulega og einstaka fjáröflun.

Til sölu hjá Emil og Patreki eru þessir litlu pokar með steinum í. Mynd: Facebook, Eva Sigurjónsdóttir

Söluvarningur drengjanna eru strigapokar með teiknaðri myllu á, með litlum, marglitum steinum í. „Fjölskyldan á sveitahús í Eskifirði sem heitir Sellátrar. Pabbi minn er þaðan,“ segir Emil. „Þar erum við mjög duglegir að fara í fjallgöngur eða niður í fjöru að leita að steinum.“ Strákarnir segjast alltaf hafa haft gaman af því að finna fallega steina, en amma þeirra sem er að austan kom þeim á bragðið.

„Einhvern tímann datt okkur í hug, eða það var eiginlega hugmyndin hennar mömmu,“ segja strákarnir. „Að búa til svona litlar myllur með steinunum. Við seldum svona fyrir tveimur árum þegar Emil átti að fara á fótboltamót, og það gekk rosalega vel.“ Pokarnir sem strákarnir gerðu í ár seldust strax upp á Facebook síðu Evu Sigurjónsdóttur, móður drengjanna. Það er mikil vinna að búa til pokana, en strákarnir hafa, með hjálp foreldra sinna, mulið steinana í hæfilega stærð og slípað þá í þar til gerðri vél.

Einn pokinn sem hægt var að kaupa á Facebook. Hann seldist fljótt, ásamt hinum. Mynd: FB

„Það eru gríðarlega falleg fjöll fyrir austan og hægt að finna fullt af flottum steinum,“ segir Emil. Hann vakti athygli fjölmiðla fyrir austan árið 2018 þegar hann opnaði steinasafn að Sellátrum. „Þegar amma og afi bjuggu ennþá fyrir austan var ég þar í þrjár vikur um sumarið og við vorum alltaf að leita að steinum. Ég opnaði þetta safn og var að selja steina. Við opnuðum safnið fyrst utandyra, svo var það fært inn í bílskúr og mig dreymir um að næla mér í eitt hús þarna undir það,“ segir Emil. Hann þarf ekki að fara í samkeppni við hið fræga Steinasafn Petru á Stöðvarfirði sem margir þekkja, vegna þess að Emil segir að hann sé í mjög góðu samstarfi við eigendur þess, og hafi fengið fullt af steinum að gjöf þaðan. 

En hvaða steinategundir eru strákarnir að finna? „Sko, við eigum bók sem við notum til þess að þekkja steinana, en erum nú farnir að þekkja þá ágætlega án hennar,“ segja þeir. „Í pokunum erum við með jaspis, bergkristal, ópal, onyx, mosa-agat og fleira. Mest er jaspis í pokunum.“ Uppáhalds steinn Emils er amethyst, sem er auðveldlega þekkjanlegur á fjólubláum, skærum lit. „Ég fann einn risastóran einu sinni. Ég var alveg í sjokki,“ segir hann. Mamma Emils segir að hann hafi burðast með þennan hnullung niður fjallið. Uppáhalds steinn Patreks er bergkristall.

Það er gott fyrir bróðernið að fara saman í steinasölu, virðist vera! Mynd: RH