Fara í efni
Fréttir

Ónýtt tækifæri SAk í sjálfsafgreiðslu

Mikil ánægja ríkir með þjónustu Sjúkrahússins á Akureyri að því er fram kemur í árlegri þjónustukönnun á vegum Stjórnarráðs Íslands. Frá því er sagt á vef sjúkrahússins að 92% svarenda séu ánægð með þjónustu SAk, sem sé hækkun um 0,2 stig frá fyrra ári. Þá var spurt um reynslu af viðmóti og sögðu samtals 95% svarenda þjónustu SAk vera mjög góða eða frekar góða.

Í könnuninni var einnig spurt um þjónustuleiðir og þar kemur í ljós að ónýtt tækifæri eru til staðar fyrir SAk, svo sem í sjálfsafgreiðslu, með netspjalli eða spjallmenni. Í frétt SAk er vitnað í Hildigunni Svavarsdóttur forstjóra, sem segir: „Við getum verið mjög stolt af þjónustustiginu okkar og erum innan settra viðmiða hvað varðar biðtíma eftir lækni á bráðamóttöku, en eigum aðeins í land varðandi ýmsa biðlista. Hvað varðar tækifæri í sjálfsafgreiðslu þá þarf að skoða hvaða leiðir myndu henta sjúkrahúsinu best þar sem þetta er stór hluti af nútímanum. Þurfum og viljum samt halda í persónulegu tengslin sem við metum svo mikils hér á SAk.“

Nálgast má niðurstöður könnunarinnar með því að smella hér.