Fara í efni
Fréttir

Ólafur skiptastjóri þrotabús N4

Ólafur Rúnar Ólafsson lögmaður hefur verið skipaður skiptastjóri þrotabús fjölmiðlafyrirtækisins N4 sem óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í síðustu viku. Hann segir engan hafa sýnt áhuga á að kaupa þrotabúið enn, enda innan við sólarhringur síðan hann kom að búinu.

„Skiptastjóri er nýkominn að borðinu og er eru fyrstu verkefnin að ná yfirsýn yfir stöðu búsins. Skiptastjóri hefur ekki upplýsingar um fyrirkomulag útsendinga sem nú eru í gangi, þar mun vera í gangi spilunarlisti sem rennur sitt skeið innan tíðar. Þrotabúið mun ekki standa fyrir því að framhald verði þar á,“ segir Ólafur Rúnar í skriflegu svari til Akureyri.net í dag.

„Enn sem komið er hefur enginn sett sig í samband við skiptastjóra með kaup í huga enda innan við sólarhringur síðan skiptastjóri fékk búið til meðferðar. Nú verður gefin út innköllun. Búið er reifa stöðuna við fulltrúa viðskiptabanka félagsins í dag og ráðgert að ræða við aðra helstu kröfuhafa og gera aðrar þær ráðstafanir sem ganga þarf í við þessar aðstæður. Þá þarf að skoða hvernig væri mögulegt að ráðstafa eignum búsins, til að mynda hvort raunhæft sé að selja reksturinn í heild til nýs rekstraraðila. Staðan er jú sú að þarna er sjónvarpsstöð reiðubúin til útsendingar og í því eru mikil verðmæti, auk mögulega blaðaútgáfu. Hver framvinda skiptanna verður skýrist vonandi á næstu dögum,“ segir í svari Ólafs Rúnars.