Fara í efni
Fréttir

Ókeypis á leiki í KG sendibílamótinu

KG sendibílamótið í handbolta hófst í gærkvöld og verður haldið áfram í dag. Um ræðir æfingamót þriggja kvennaliða, þar sem lið KA/Þórs, FH og HK mætast. Allir leikirnir fara fram í KA-heimilinu og er ókeypis aðgangur.

Fyrsti leikurinn fór fram í gær, en þá mættust aðkomuliðin, FH og HK. Í dag kl. 14 tekur KA/Þór á móti FH og lokaleikurinn verður á morgun kl. 12 þegar KA/Þór og HK mætast.

Lið KA/Þórs býr sig nú undir að hefja leik í næstefstu deild Íslandsmótsins, Grill 66 deildinni, en liðið féll úr efstu deild, Olísdeildinni, í vor. Það kemur þó varla á óvart að þjálfarar og fyrirliðar liðanna í Grill 66 deildinni spá liðinu efsta sætinu. Fyrsti leikur liðsins í Íslandsmótinu verður heimaleikur gegn Haukum 2 sunnudaginn 15. september. 

Lydía Gunnþórsdóttir framlengir

Félagði tilkynnti á dögunum að hin efnilega handboltakona Lydía Gunnþórsdóttir hefði undirritað nýjan eins árs samning og verði því með liðinu í Grill 66 deildinni í vetur. Hún er ein efnilegasta handboltakona landsins og var í lykilhlutverki með U18 ára landsliði Íslands HM sem fram fór í Kína í sumar. Lydía verður 18 ára í lok mánaðarins, en á engu að síður að baki 52 leiki með meistaraflokki KA/Þórs í deildarkeppni, bikarkeppni og Evrópukeppni.

Í frétt félagsins segir meðal annars um Lydíu: „Lydía er gríðarlega efnilegur leikstjórnandi, með mikinn leikskilning og er auk þess frábær skotmaður. Þá býr hún yfir miklum leiðtogahæfileikum og drífur liðsfélaga sína með sér. Hún átti því heldur betur skilið að hljóta Böggubikarinn á 96 ára afmælisfögnuði KA en hann er veittur einstaklingum sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega.“