Fara í efni
Fréttir

Ögmundur frá Fiskistofu til Alþjóðabankans

Akureyringurinn Ögmundur Knútsson lætur af starfi Fiskistofustjóra í næstu viku og tekur senn við starfi hjá Alþjóðabankanum, sem sérfræðingar í sjávarútvegi fyrir Vestur-Afríku. Greint er frá þessu á vef Fiskistofu.

Á vef stofnunarinnar er Ögmundi þakkað fyrir vel unnin störf og honum óskað velfarnaðar í nýju starfi hjá Alþjóðbankanum, sem „Senior Fisheries Specialist“ fyrir Vestur-Afríku, eins og þar segir.

Elín Björg Ragnarsdóttir, sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs og staðgengill Fiskistofustjóra mun sinna starfi Ögmundar þar til nýr Fiskistofustjóri verður ráðinn. Starfið verður auglýst á næstu dögum.

Samhliða þessum breytingum mun Sævar Guðmundsson taka við sviðsstjórakeflinu af Elínu, að því er segir á vef Fiskistofu.

Ögmundur var ráðinn Fiskistofustjóri árið 2020 til fimm ára. Hann er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri, meistaragráðu í sömu grein frá Háskólanum í Edinborg ásamt því að hafa lokið doktorsprófi frá sama skóla og fjallaði doktorsverkefnið hans um stjórnun á samstarfi í íslenskum sjávarútvegi með áherslu á þróun sölusamtakanna.

Ögmundur starfaði hjá Háskólanum á Akureyri frá árinu 1994 til ársins 2019 m.a. sem framkvæmdastjóri stefnumótunar og starfsþróunar á árunum 2001 til 2006, framkvæmdastjóri Rannsóknastofnunar háskólans 2006 til 2007 og deildarforseti á árunum 2015-2017. Þá sinnti hann kennslu og rannsóknum við skólann og hafa rannsóknir hans tengst sjávarútvegi hér á landi og erlendis. Áður en hann var ráðinn Fiskistofustjóri starfaði Ögmundur sjálfstætt sem ráðgjafi og vann þá að verkefnum tengdum sjávarútvegi meðal annars í Albaníu og Víetnam.

Ögmundur er á 61 árs. Eiginkona hans er Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri.