Fara í efni
Fréttir

Ófremdarástand við Oddeyrarskóla

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar tók fyrr í vikunni fyrir erindi frá foreldrafélagi Oddeyrarskóla þar sem óskað er eftir að settar verði upp öryggismyndavélar við skólann. Erindinu var vísað áfram til umhverfis- og mannvirkjasviðs og samkvæmt upplýsingum sem Akureyri.net hefur fengið var málið komið í ferli og staðfest er að öryggismyndavélar verða settar upp við skólann.

Æla, glerbrot, flugeldar og þvaglát

Í bréfi foreldrafélagsins koma fram ófagrar lýsingar á umgengni á lóð og leikvelli skólans og bent á að félagið hafi haft af því fregnir að „unglingar úr öðrum hverfum sæki hingað einmitt vegna þess að það eru engar myndavélar,“ eins og segir í erindinu. Þar er bent á að öryggismyndavélar séu við alla grunnskóla bæjarins nema Oddeyrarskóla og spurt hver ástæða þess sé. Leikvöllur við skólann var endurnýjaður í haust og hefur umferð fólks um skólalóðina margfaldast að því er fram kemur í erindinu.

Síðar í bréfinu segir: „Það virðist margt misjafnt eiga sér stað þarna í skjóli myrkurs og hefur starfsfólk skólans komið að nýja leiksvæðinu í misgóðu ástandi …“ Bent er á að til dæmis hafi svæðið verið útælt, þar hafi verið glerbrot í rennibrautum og út um alla lóð, augljóslega hafi verið migið í kastalann og rennibrautir, torf rifið og spólað upp ásamt fleiru. „Íbúar í nágrenni skólans verða oft fyrir miklu ónæði vegna hávaða og skrílsláta og eftir áramótin hafa flugeldar verið sprengdir ítrekað í og við leiktækin, nú síðast 6. febrúar, en þá birti nágranni skólans myndir á hverfissíðu Oddeyrar þar sem sást vel þegar unglingar sprengdu flugelda inn í nýju rennibrautunum.“

Fælingarmáttur myndavélanna

Bent er á að öryggismyndavélar hafi fælingarmátt og því sé farið fram á að þær verði settar upp strax. Fræðslu- og lýðheilsuráð „tekur undir áhyggjur foreldrafélagsins og leggur til að settar verði upp öryggismyndavélar við skólann og vísar málinu til umhverfis- og mannvirkjasviðs,“ segir í afgreiðslu fræðslu- og lýðheilsuráðs á erindinu.

Ef litið er á málið í stærra samhengi má svo kannski í framhaldinu spyrja um öryggisráðstafanir almennt í og við grunnskóla bæjarins.