Fara í efni
Fréttir

Oddur F. Helgason ættfræðingur látinn

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Oddur F. Helgason, ættfræðingur og fyrrverandi sjómaður, er látinn. Oddur fæddist á Akureyri 29. nóvember 1941. Hann lést í Reykjavík 1. desember og var því nýorðinn 82 ára. Eiginkona Odds, Unnur Pálsdóttir, lést þremur dögum áður, 28. nóvember.

Oddur ólst upp hjá afa sínum og ömmu, Stefaníu Einarsdóttur og Páli Jónssyni. Að loknu námi í Gagnfræðaskóla Akureyrar hóf hann sjómennsku, 15 ára að aldri, hjá Útgerðarfélagi Akureyringa.
 
Eftir þrjá áratugi á sjónum, lengst af á togurum ÚA, kom Oddur „spekingur“ eins og hann var gjarnan kallaður, í land árið 1987. Hann flutti til Reykjavíkur árið 1990, stofnaði fljótlega ættfræðiþjónustuna ÓRG og hefur lengi verið einn þekktasti ættfræðingur landsins. Oddur lagði alla tíð mikla áherslu á samstarf við þjóðina“ í starfi sínu og í ættfræðigrunninum Unni – sem Oddur nefndi eftir konu sinni – eru nærri 900.000 manns skráðir.