Oddfellowar gefa á sjöttu milljón króna

Oddfellowstúkurnar á Akureyri, sem eru fimm talsins, afhentu um helgina Jólaaðstoðinni á Eyjafjarðarsvæðinu þrjár milljónir króna í styrk. Að Jólaaðstoðinni standa Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn, Mæðrastyrksnefnd og Rauði krossinn.
Umsókn um jólaaðstoð barst frá 400 heimilum í Eyjafirði að þessu sinni, samanborið við 309 á síðasta ári, eins og greint var frá hér á Akureyri.net í vikunni. Þetta er 30% aukning frá því í fyrra.
Fyrir nokkrum vikum afhentu Oddfellowstúkurnar á Akureyri Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis kr. 2.250.000 að gjöf. Í tilkynningu kemur fram að í gegnum tíðina hafi Oddfellow styrkt starfsemi félagsins reglulega „og er þessi veglegi styrkur nú svar stúkanna við neyðarkalli félagsins vegna erfiðrar fjárhagsstöðu þess.“