Fara í efni
Fréttir

Óbreyttar takmarkanir á SAk, tugir starfsmanna frá vinnu

Á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) eru nú 12 manns inniliggjandi með Covid-19, þar af einn á gjörgæsludeild. Sjúkrahúsið er á hættustigi. Í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru í dag skráðir um 2000 í einangrun vegna Covid-19.

Á vef SAk kemur fram í dag að á milli 60  og 70 starfsmenn séu fjarverandi vegna veirunnar og að það sé ein aðaláskorunin þessa dagana. „Skoðað er dag frá degi hvernig tekist er á við mönnunina. Minnt er á bakvarðalistann og þeir sem hafa möguleika á að skrá sig á listann eru eindregið hvattir til þess. Hægt er að skrá sig með því að senda póst á erlab@sak.is,“ segir þar.

Frá miðnætti var öllum takmörkunum varðandi Covid-19 aflétt í samfélaginu og er staðan því nokkuð breytt. Áfram er þó mælst til þess að almennt séu viðhafðar persónubundnar sóttvarnir.

„Í ljósi fjölda smita í samfélaginu og mönnunarvanda á sjúkrahúsinu er talið mikilvægt að halda áfram þeim smitvörnum sem í gangi eru á SAk. Engar breytingar eru því að svo stöddu t.d. varðandi takmarkanir á heimsóknum, grímunotkun, notkun á hlífðarfatnaði eða þjónustu í mötuneyti. Þetta verður skoðað nánar eftir helgina,“ segir á vef stofnunarinnar.

Fyrir sjúklinga SAk gildir eftirfarandi:

  • Ef sjúklingur er með Covid-19 einkenni við komu á bráðamóttöku er tekið af honum hraðpróf.
  • Sjúklingar sem leggjast inn og eru með einkenni eða grun um Covid-19 fara í PCR próf.
  • Sjúklingar með staðfest Covid-19 smit fara í einangrun eins og hingað til.
  • Þó smit sé á heimili sjúklings er ekki þörf á sóttkví innan sjúkrahússins.
  • Ekki er þörf á PCR eða hraðprófi þó inniliggjandi sjúklingar flytjist milli stofnana.

Heilsugæslan á Akureyri hefur gefið út eftirfarandi varðandi breytingar á sýnatökum:

  • Frá og með 24. febrúar verður opið fyrir hraðpróf frá 9:00-12:30 í Strandgötu 31. Ekki verður lengur í boði fyrir almenning með einkenni COVID-19 að panta PCR sýnatöku heldur verða hraðgreiningarpróf einungis í boði. Eins og áður verður hægt að panta tíma í hraðgreiningarpróf í gegnum Heilsuveru eða hjá einkafyrirtækjum.
  • Stefnt er að því að loka göngudeild vegna Covid-19 í næstu viku. Þeim sem þurfa læknisþjónustu, aðra en bráðaþjónustu er vísað á Heilsuveru og heilsugæsluna í síma 1700.