Fara í efni
Fréttir

Nýtt gagnaver atNorth vígt á Akureyri

Tölvuteikning af gagnaverinu eins og áformað er að það verði fullbyggt. Tvö fremstu húsin eru nú risin og var því fagnað í dag. Mynd: atNorth

Fyrirtækið atNorth opnaði í dag formlega fyrsta áfanga í uppbyggingu húsnæðis fyrir gagnaver að Hlíðarvöllum, iðngörðum sunnan Hlíðarfjallsvegar ofan við Akureyri. Fyrsti áfangi reis á mettíma að því er fram kom við athöfnina í dag, en nú eru um 11 mánuðir frá því að framkvæmdir hófust. 

Forsvarsmenn atNorth lofa samstarf við heimamenn í tengslum við uppbyggingu gagnaversins og vísa þar bæði til verktaka á svæðinu og tuga starfsmanna á þeirra vegum sem komu að verkefninu og ekki síður samstarfs við skipulagsyfirvöld hjá Akureyrarbæ, Norðurorku, Landsnet og Landsvirkjun. Jóhann Þór Jónsson, yfirmaður hjá atNorth, sagði verkefnið einstakt. „Heilt yfir held ég að við getum sagt að þetta sé algjörlega einstakt verkefni sem við höfum ráðist í hérna og náð að klára á innan við ári eftir að við fengum leyfi hefja jarðvegsvinnu hérna. Samstarfið við heimamenn hefur verið algjörlega einstakt,“ sagði Jóhann Þór við athöfnina í dag.

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, ávarpar gesti við athöfnina í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, flutti ávarp við athöfnina í dag og „opnaði“ gagnaverið formlega, sem er að nokkru leyti öfugmæli því þegar gagnaver hefja starfsemi gilda mjög strangar reglur um aðgengi að húsnæðinu og það því sannarlega ekki mjög „opið“. Móttaka gesta með léttum veitingum eins og í dag er möguleg núna þegar húsið hefur ekki verið fyllt af tölvum og búnaði viðskiptavina, en væri óhugsandi eftir að viðskiptavinir hafa komið sínum búnaði fyrir í húsinu. Hlutverk atNorth er að bjóða upp á húsnæði þar sem farið er eftir ýtrustu öryggiskröfum í allri starfseminni, til dæmis varðandi raforku og afhendingu hennar, öryggi í tengingum, kælingu, loftræstingu og þess háttar. 

Fjarri lagi að tala um illa launuð og ósérhæfð störf

Eyjólfur Magnús kom einnig inn á það í ávarpi sínu að í kringum uppbyggingu gagnavera hafi oft verið neikvæður undirtónn. „Hluti af þeirri gagnrýni sem við höfum verið að fá er að hér starfi fáir og þeir séu bæði að vinna ósérhæfð og illa launuð störf. Við sem erum í þessu vitum að þetta er fjarri lagi. Hjá atNorth erum við orðin um 80 starfsmenn, hefur farið mjög fjölgandi í ár og sjáum fram á töluverða fjölgun á komandi misserum,“ sagði Eyjólfur Magnús.

Hann sagði að af þessum 80 starfsmönnum væru um 90% annaðhvort með háskólapróf eða iðnmenntun. „Hérna erum við að skapa mikil verðmæti og erum mjög stolt af því,“ sagði hann ennfremur og kvaðst geta fullyrt að starfsfólk fyrirtækisins fengi borgað töluvert yfir öllum töxtum sem þekkist á hinum almenna vinnumarkaði. Hann benti jafnframt á mikilvægi afleiddra starfa því gera mætti ráð fyrir að fyrir einn starfsmann í gagnaverinu væru þrír verktakar starfandi inni í gagnaverum á hverjum degi. 

Jóhann Þór Jónsson, yfirmaður hjá atNorth, til hægri, og Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs Akureyrar í dag.

Það fullkomnasta sinnar tegundar

Við vígsluna færði Eyjólfur Magnús verktökum sínar bestu þakkir fyrir frábært samstarf, en stærsti hluti verksins var unnin af heimamönnum. „Þetta er stór dagur fyrir okkur og nærsamfélagið á Akureyri. Gagnaverið er það fullkomnasta sinnar tegundar og fjarlægð frá öðrum starfsstöðvum atNorth gefur viðskiptavinum færi á að tryggja landfræðilegan aðskilnað milli sinna tölvukerfa. Þannig tekst að lágmarka hættuna af mögulegum truflunum, t.d. vegna náttúruvár. Það styrkir okkar samkeppnisstöðu,“ segir Eyjólfur Magnús.

Hann segir Akureyri mjög heppilegan stað fyrir rekstur gagnavers, enda sé mikilvægt að velja gagnaveri stað þar sem samgöngur eru greiðar og menntað fólk til staðar til að sinna uppbyggingu, rekstri og þjónustu við gagnaverið og viðskiptavini þess. Sú sé raunin á Akureyri, þar sem nálægð við öflugt háskólasamfélag skapi líka ótal tækifæri. „Við hlökkum til að halda áfram uppbyggingu á Akureyri og munum þegar hefjast handa við næsta áfanga í uppbyggingunni hér á svæðinu. Við erum jafnframt reiðubúin til samstarfs og nýsköpunar af ýmsu tagi, t.d. varðandi framleiðslu á heitu vatni með nýtingu umframvarma frá gagnaverinu, en það höfum við gert með góðum árangri í Svíþjóð,“ segir Eyjólfur Magnús.

Uppbygging gagnavera færist norðar

Fyrsti áfangi gagnaversins að Hlíðarvöllum er um 2.500 fermetrar í tveimur samtengdum byggingum og nemur kostnaður við framkvæmdina vel á þriðja milljarð króna. Fullbyggt verður gagnaverið í fimm byggingum, auk þess sem þrjár nýjar skrifstofu- og þjónustubyggingar verða á athafnasvæði atNorth. Helstu verktakar voru byggingafyrirtækin Perago Bygg og Lækjarsel, lagnafyrirtækið Áveitan, rafverktakinn Rafeyri og jarðvinnuverktakinn Finnur ehf. Hönnun hefur verið í höndum AVH, Raftákns, Verkíss á Akureyri og Elhönnunar.

Uppbygging gagnavera í Evrópu hefur á undanförnum árum færst sífellt norðar í álfuna, þar sem hitastig er lægra, orkan endurnýjanleg, tæknilegir innviðir eru sterkir og hæft fólk fæst til starfa.

Fram kemur í tilkynningu fyrirtækisins að gagnaver gegni mikilvægu samfélagshlutverki í stafrænum heimi, þar sem einstaklingar og fyrirtæki reiða sig á margvíslega gagna- og reikniþjónustu. Þannig geyma margir ljósmyndir og önnur persónuleg gögn í gagnaverum, eða nýta skýjaþjónustu sem byggir á gagnavistun eða -úrvinnslu í gagnaverum. Gagnaver atNorth mun þjónusta innlenda og erlenda viðskiptavini; bæði með gagnavistun og ofurtölvuþjónustu til ýmis konar útreikninga á sviði verkfræði, fjármála og rannsókna. Meðal viðskiptavina atNorth eru orku- og bifreiðaframleiðendur, streymisveitur, máltækni- og gervigreindarfyrirtæki svo fátt eitt sé nefnt.