Fara í efni
Fréttir

Nýtt Akureyrarapótek á Norðurtorgi í haust

Lyfjafræðingarnir Gauti Einarsson og Jónína Freydís Jóhannesdóttir, eigendur Akureyrarapóteks. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Eigendur Akureyrarapóteks munu færa út kvíarnar í haust þegar opnað verður nýtt apótek í verslunarkjarnanum Norðurtorgi. 

Nýja apótekið verður í nýbyggingu norðan við núverandi húsnæði Norðurtorgs. Þegar hefur verið tilkynnt að Vínbúðin, verslun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR), verður opnuð í sama húsi á þessu ári.

Akureyrarapótek var stofnað árið 2010 og hefur verið starfrækt í verslunarkjarnanum Kaupangi síðan. Stofnendur og eigendur eru lyfjafræðingarnar Jónína Freydís Jóhannesdóttir og Gauti Einarsson. Apótekið var stækkað verulega síðastliðið haust og var meðfylgjandi mynd tekin eftir þær breytingar. Nýja apótekið á Norðurtorgi verður með sama sniði og hitt.

Eftir því sem Akureyri.net kemst næst hefur aðeins einu sinni verið apótek norðan Glerár; Sunnuapótek, sem var í eigu KEA, var rekið í verslunarkjarnanum Sunnuhlíð frá 10. apríl 1997 þar til 1. september árið 1999. 

Bæði Akureyrarapótek og Vínbúðin verða á jarðhæð hússins sem nú rís norðan við aðalbyggingu Norðurtorgs. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson