Fara í efni
Fréttir

Nýta laus rými frekar en fólk liggi á göngum

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, segir yfirlýsingu hjúkrunarfræðinga á barnadeild stofnunarinnar endurspegla það sem hún hafi áður sagt varðandi álag í starfseminni, „en það eru allir af vilja gerðir til að vinna saman að lausn mála og við munum áfram vinna að því,“ segir forstjórinn við Akureyri.net.

Hjúkrunarfræðingarnir bentu meðal annars á, í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér í morgun, að þeim sé í auknum mæli gert að taka við fullorðnum sjúklingum sem eigi alls ekki heima á barnadeild að þeirra mati. Þá segjast þeir ítrekað hafa upplifað leiðinleg og neikvæð samskipti.

„Mikið álag hefur verið á SAk í sumar og þegar deildir eru yfirfullar þá höfum við þurft að nýta þau rými sem laus eru, hvort sem þau eru á barnadeild eða öðrum deildum. Ákjósanlegast er að fullorðnir séu á fullorðinsdeild og börn á barnadeild en þetta snýst um að veita sjúklingum þjónustu í rými frekar en á gangi eða við aðrar minna ákjósanlegar aðstæður og þess vegna hefur stundum verið leitað í það úrræði þegar neyðin er hæst að leggja fólk inn á aðrar deildir,“ segir Hildigunnur í skriflegu svari.

„Mannekla hefur verið ríkjandi í sumar jafnt hjá okkur sem og í öllu kerfinu og er grunnvandi helst sá að öldruðum fjölgar og fjölga þarf úrræðum til að veita þeim þjónustu á réttum stað og er verið að vinna að þeim málum.“ Þá segir Hildigunnur að Covid dragi dilk á eftir sér með tilliti til veikinda og þá sé fjölgun ferðamanna í bænum íþyngjandi fyrir starfsemina.

Frétt Akureyri.net í morgun: Segja öryggi sjúklinga og starfsfólks ógnað