Fara í efni
Fréttir

Nýja lyftan ekki í notkun fyrr en eftir áramót

Nýja stólalyftan í Hlíðarfjalli verður ekki tekin í notkun fyrr en eftir áramót. Vinir Hlíðarfjalls, sem standa að framkvæmdinni, geta ekki afhent Akureyrarbæ lyftuna til notkunar fyrr en að lokinni öryggisúttekt erlendra sérfræðinga, von var á þeim í byrjun október en af því hefur ekki orðið enn vegna krónuveirufaraldursins.

Verði nægur snjór í Hlíðarfjalli er stefnt að því að opna skíðasvæðið um miðjan desember.

Lyftan átti upphaflega að vera tilbúin til notkunar fyrir tveimur árum, í desember 2018, en framkvæmdir gengu hægar en gert hafði verið ráð fyrir og þá gerði veðrið mönnum erfitt fyrir síðasta vetur. Meira snjóaði þá en síðustu tvo áratugi. Þá setti heimsfaraldurinn strik í reikninginn.

Margir hlakka til þessa nýja möguleika í fjallinu; skíðamenn komast töluvert hærra en hingað til, upp á svokallaða Fjallkonuhæð, sem er liðlega þúsund metrum yfir sjávarmáli.