Fara í efni
Fréttir

Norðurorka vill nýta „glatvarma“ til hitaveitu

Viljayfirlýsing undirrituð. Frá vinstri: Gunnar Gunnarsson, viðhaldsstjóri TDK, Florian Delpoux, rekstrarstjóri TDK, Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku og Stefán H. Steindórsson, sviðsstjóri veitu- og tæknisviðs hjá Norðurorku. Mynd af vef Norðurorku.

Norðurorka hyggst kanna hvort mögulegt sé að nýta svokallaðan glatvarma frá álþynnuverksmiðjunni TDK [sem áður hét Becromal] í Krossanesi.

Í vikunni var undirrituð viljayfirlýsing sem „felur í sér samkomulag um könnun á nýtingu glatvarma með upphitun á bakrásarvatni úr kerfum Norðurorku. Ráðgjafar á vegum Norðurorku munu því á næstunni búa til skýrslu sem inniheldur frumhönnun, áætlaðan kostnað og mögulega tímalínu verkefnis auk áfangaskiptingar,“  segir á vef Norðurorku.

Glatvarmi er ónýttur varmi eða orka sem streymir frá fyrirtækjum og hægt er að fanga og virkja, skv. upplýsingum á vef Norðurorku. „Frá verksmiðjunni TDK streymir mikið af heitu vatni sem vonast er til að hægt sé að nýta inn á kerfi Norðurorku með tiltölulega auðveldum hætti. Líkt og fram hefur komið í fréttum undanfarið er hitaveitan komin að þolmörkum. Nú þarf að leggja í meiri rannsóknir og leita lengra í leit að orkustraumum og er þetta samstarf við TDK þáttur í þeirri vegferð. Ef vel tekst til með nýtingu á glatvarma frá TDK verður það mikil lyftistöng í rekstri hitaveitunnar og leiðir til þess að hægt er að hægja á fjárfestingum í jarðhitavinnslu.“