Fara í efni
Fréttir

Norðurorka selur lífdísilfélagið Orkey

Ásgeir Ívarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Gefnar og Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku. Mynd: Norðurorka.

Fyrirtækið Orkey var í 100% eigu Norðurorku þar til um nýliðin mánaðamót þegar Gefn ehf. keypti fyrirtækið. Frá því að Norðurorka eignaðist félagið hefur verið unnið að því að kanna grundvöll fyrir lífdísilframleiðslu Orkeyjar. Framleiðsla lífdísils er hins vegar ekki hluti af kjarnastarfsemi Norðurorku og þegar kom að ákveðnum kaflaskilum í rannsóknum fyrirtækisins taldi stjórn Norðurorku tímabært að stíga þetta skref. „Rekstrinum hefur verið sýndur áhugi og eftirspurn eftir lífdísil er að aukast, bæði sem eldsneyti og í aðra vinnslu. Stjórn Norðurorku taldi því að nú væri tímabært að hleypa öðrum, kraftmiklum aðilum að sem geta haldið áfram að þróa starfssemi Orkeyjar og auka veg fyrirtækisins,“ segir í frétt Norðurorku.

Eigendur Gefnar ehf. eru Ásgeir Ívarsson, sem á 55% í félaginu, og Ragnar Heiðar Guðjónsson með 45%. Í frétt Norðurorku kemur fram að starfsfólk Gefnar hafi markverða þekkingu og reynslu af framleiðslu lífdísils sem og notkun hans. „Gefn stefnir á áframhaldandi rekstur Orkeyjar á Akureyri og er það von Norðurorku og trú að Orkey dafni vel með nýjum eigendum,“ segir í fréttinni. 

„Félagið Orkey var stofnað á Akureyri í ársbyrjun 2007. Orkey tekur á móti notaðri steikingarolíu án nokkurs kostnaðar og framleiðir lífdísil. Við það sparast urðunargjald á tugum tonna af úrgangi á ári sem annars fellur á veitingahús og mötuneyti. Úr verður verðmæt vara með mikinn virðisauka því einnig sparast innflutningur á eldsneyti. Í ferlinu er úrgangurinn hvarfaður við metanól. Orkey leggur metnað í að nota eins umhverfisvænt metanól og fæst hverju sinni. Framleiðslan er einstök að því leyti að hún nýtir hreina íslenska orku til að breyta úrgangi í eldsneyti. Úrgangi sem annars gæti endað í fráveitukerfi bæjarins eða í urðun. Ávinningurinn er því okkar allra," segir að lokum í frétt Norðurorku.