Fara í efni
Fréttir

Norðurorka leitar að leka með drónum

Akureyringar verða eflaust varir við drónaflug í kvöld og á morgun. Engin hætta á ferð, bara lekaleit á vegum Norðurorku. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Í kvöld, á morgun og annað kvöld mega Akureyringar eiga von á því að verða varir við dróna á sveimi yfir bænum. Ástæðan er sú að starfsmenn frá umhverfisverkfræðistofunni ReSource International munu gera leikaleit á hitaveitu innan Akureyrar og Ólafsfjarðar fyrir hönd Norðurorku. Þetta kemur fram á vef Norðurorku. Fimmtudagurinn verður til vara ef veðurskilyrði breytast.

Lekaleitin fer þannig fram að drónum er flogið í 50 metra hæð eða meira og teknar hitamyndir af bænum og þær nýttar til að leita uppi leka ásamt því að varpa ljósi á mögulega viðhaldsþörf og bæta afhendingaröryggi, eins og segir í frétt Norðurorku.

Búast má við því að drónaflugið muni vekja athygli bæjarbúa, en í frétt Norðurorku segir að ReSource International muni leitast við að framkvæma verkið með öryggi og hag íbúa að leiðarljósi.