Fara í efni
Fréttir

Norðurlandsúrval vann báða leikina í Danmörku

Norðurlandsúrvalið í Danmörku á síðustu viku.

Úrvalshópur knattspyrnustelpna frá félögum á Norðurlandi er nýkominn heim úr nokkurra daga, vel heppnaðri æfingaferð til Danmerkur. Í hópnum voru 18 leikmenn, 15 og 16 ára, ásamt þjálfarateymi og fararstjóra.

Drengir úr landshlutanum fóru sams konar ferð viku áður, sannarlega spennandi verkefni fyrir þetta unga knattspyrnufólk. Að sögn fararstjóra og þjálfara var ferðin skemmtileg og bætti miklu við í reynslu- og ekki síður minningabankann hjá stelpunum – og væntanlega þjálfurum og fararstjórum einnig, segir á heimasíðu Þórs, þar sem fjallað er um ferðina.

„Þátttakendur komu frá Þór/KA, Tindastóli, Hvöt, Umf. Fram og Völsungi. Hópurinn var valinn í framhaldi af landshlutaæfingum vetrarins, afreksæfingum á landsbyggðinni sem eru hluti af afreksstefnu KSÍ,“ segir á vef Þórs. „Stelpurnar fengu rausnarlegan stuðning frá fjölmörgum fyrirtækjum á Norðurlandi til að standa straum af kostnaði við ferðina og vilja þær koma á framfæri bestu þökkum til allra sem studdu við bakið á þeim.“

Áfram segir:

„Á mánudag æfðu stelpurnar á æfingasvæði Bröndby í Kaupmannahöfn, en að auki höfðu verið skipulagðir tveir æfingaleikir við U16 lið tveggja danskra félagsliða. Leikið var gegn FC Nordsjælland á þriðjudeginum, spilaðar 2x40 mínútur og svo gegn Bröndby á miðvikudeginum þar sem spilaðar voru 3x30 mínútur.

Leikurinn gegn FC Nordsjælland var jafn, hraður og skemmtilegur og það að fá að spila á aðalvelli félagsins gerði upplifunina enn sterkari og skemmtilegri. Norðurlandsúrvalið sigraði lið FC Nordsjælland, 1-0, og var það Elísa Bríet Björnsdóttir sem skoraði markið.

Leikurinn gegn Bröndby var lengri í heildina, skipt í þrjá þrjátíu mínútna leikhluta. Sá leikur fór fram á heimavelli kvennaliðs Bröndby. Heimaliðið komst yfir í öðrum leikhlutanum, en stelpurnar í Norðurlandsúrvalinu svöruðu strax með marki og svo fljótlega öðru marki í þeim leikhluta. Í þriðja leikhluta höfðu þær mikla yfirburði, bara eitt lið á vellinum, og þá bættu þær við þremur mörkum. Mörkin skoruðu Birgitta Rún Finnbogadóttir, Rebekka Sunna Brynjarsdóttir, Hildur Anna Birgisdóttir, Katla Guðný Magnúsdóttir og Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir.“

Norðurlandsúrvalið ásamt þjálfurum og liði Bröndby.

Þjálfarar í ferðinni voru Ágústa Kristinsdóttir frá Þór/KA og Þórólfur Sveinsson frá Tindastóli, auk þess sem Runólfur Trausti Þórhallsson, markvarðaþjálfari hjá akademíu FCK, var þeim innan handar, bæði á æfingunum og í leikjunum. Fararstjórar í ferðinni voru Erla Ormarsdóttir og Ragnar Már Þorgrímsson.

Hópurinn í stafrófsröð:

 • Birgitta Rún Finnbogadóttir
 • Elísa Bríet Björnsdóttir
 • Elísabet Ingvarsdóttir
 • Elísabet Nótt Guðmundsdóttir
 • Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir
 • Halla Bríet Kristjánsdóttir
 • Hildur Anna Birgisdóttir
 • Hulda Þórey Halldórsdóttir
 • Ísey Ragnarsdóttir
 • Karlotta Björk Andradóttir
 • Katla Bjarnadóttir
 • Katla Guðný Magnúsdóttir
 • Klara Parraguez Solar
 • Kolfinna Eik Elínardóttir
 • Nína Rut Arnardóttir
 • Rebekka Sunna Brynjarsdóttir
 • Sigríður H. Stefánsdóttir
 • Tinna Sverrisdóttir

Tíu af þessum 18 stelpum koma úr 3. flokknum hjá Þór/KA, þær Emelía, Hildur Anna, Ísey, Karlotta Björk, Katla, Klara, Kolfinna Eik, Nína Rut, Rebekka Sunna og Tinna.

Fréttin á heimasíðu Þórs

Norðurlandsúrvalið ásamt liði FC Nordsjælland.