Fara í efni
Fréttir

Norðurhjálp vantar sárlega húsnæði

Sæunn Ísfeld og Stefanía Fjóla, tvær af stofnendum Norðurhjálpar. Mynd RH

Norðurhjálp er nytjamarkaður með hjálparstarf að leiðarljósi. Markaðurinn var opnaður í október á síðasta ári af fjórum konum sem hafa reynslu af svipuðu starfi, Sæunni Ísfeld, Stefaníu Fjólu, Guðbjörgu Thorsen og Önnu Jónu Vigfúsdóttur. Markaðurinn hefur fengið að leigja gamla Hjálpræðishershúsið við Hvannavelli 10 fyrir lítinn pening hingað til, en til stendur að rífa húsið í byrjun apríl. Sæunn Ísfeld er áhyggjufull yfir því að ekki takist að finna hæfilegt húsnæði fyrir starfið fyrir þann tíma.

Sæunn segir að frá því að Norðurhjálp opnaði í október og fram í janúar, hafi þeim tekist að safna 2,6 milljónum sem voru nýttar til þess að styrkja fjölskyldur og einstaklinga á svæðinu.

„Við vissum frá byrjun að það stæði til að rífa húsið,“ segir Sæunn. „Það hefur gengið illa að finna nýtt húsnæði í bænum, bæði þurfum við helst ágætt pláss og höfum ekki efni á því að borga mjög háa leigu, þar sem allt starfið er í sjálfboðavinnu og allur ágóði fer í úthlutanir.“ Sæunn segir að frá því að Norðurhjálp opnaði í október og fram í janúar, hafi þeim tekist að safna 2,6 milljónum sem voru nýttar til þess að styrkja fjölskyldur og einstaklinga á svæðinu sem ekki hafa nóg á milli handanna. 

„Það hefur alveg sannast að það er þörf,“ segir Sæunn. „Akureyringar og nærsveitafólk eru búin að taka okkur ofboðslega vel, mörg sem gefa, mörg sem koma og versla og við erum afskaplega þakklátar fyrir velvild og gjafmildi fólksins hérna.“ Sæunn bætir við að það sé búin að skapast mjög skemmtileg stemning í versluninni, en þar er alltaf kaffi og kex í boði. 

„Nú stöndum við frammi fyrir því að verða að finna húsnæði ef starfið á að geta haldið áfram,“ segir Sæunn og óskar eftir ábendingum um góða staði, ef ske kynni að lesendur lumi á hugmyndum.

Best er að hafa samband á Facebook síðu Norðurhjálpar -> HÉR