Fara í efni
Fréttir

Norður hefur keypt Crossfit Akureyri

Crossfit Akureyri við Njarðarnes - sem verður Norður Njarðarnesi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Crossfit Akureyri við Njarðarnes - sem verður Norður Njarðarnesi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Eigendur æfingastöðvarinnar Norður keyptu í gær Crossfit Akureyri og taka við rekstrinum um mánaðamótin. Norður verður því með tvær stöðvar í bænum, á núverandi stað við Tryggvabraut og við Njarðarnes, þar sem Crossfit Akureyri er til húsa.

Eigendur Norður eru fjórir; Helga Ómarsdóttir, Erlingur Óðinsson og hjónin Björk Óðinsdóttir og Blaine McConnel. Björk, Blaine og Helga eru öll þjálfarar á Norður og munu starfa á báðum stöðum, auk þess sem flestir þjálfarar Crossfit Akureyri verða áfram við störf við Njarðarnes.

Fjórmenningarnir keyptu líkamsræktarstöðina Heilsuþjálfun um mitt síðasta ár og breyttu nafninu í Norður. „Við höfum fengið frábærar viðtökur; byrjuðum á 2. og 3. hæð hér við Tryggvabraut, þar sem Heilsuþjálfun var, en erum komin með stóran sal á jarðhæðinni líka. Við keyptum þrotabú Crossfit Hamar og erum með þau tæki í salnum á jarðhæðinni,“ sagði Björk Óðinsdóttir við Akureyri.net í morgun.

„Við höfðum hugsað um þetta í töluverðan tíma. Heyrðum fyrst í eigendunum Crossfit Akureyri fyrir tveimur mánuðum, segja má að Covid hafi tafið okkur en svo ákváðum við að kýla á þetta,“ segir Björk.

Hún er hvergi bangin. „Við ætlum í samkeppni við World Class með því að vera líka með tvær stöðvar í bænum; þeir sem eiga kort hjá okkur geta flakkað á milli stöðva, farið í tíma hvort sem er í Norður Tryggvabraut eða Norður Njarðarnesi,“ segir Björk.

Norður er með starfsemi á öllum hæðum hússins númer 22 við Tryggvabraut. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.