Norðlenskur skyndibiti sækir í höfuðborgina

Aðdáendur akureyrska skyndibitastaðarins Taste Burger & shakes við Ráðhústorg geta frá og með næstu helgi keypt sama skyndibitafæði í Reykjavík. Eigandi staðarins, Ali Hyder Malik, færir út kvíarnar og undirbýr opnun á nýjum stað í Skeifunni.
Samkvæmt upplýsingum frá Ali mun staðurinn í Reykjavík heita Malik Burgers, vefjur and shakes. Matseðill staðarins verður sá sami og hjá Taste á Akureyri. Þetta er annar staðurinn sem Ali opnar á innan við ári en hann opnaði skyndibitastaðinn Malik Kebab & Pizza í miðbæ Akureyrar í október. Fyrir átti hann staðinn Taste Burger & shakes við Ráðhústorg sem verið hefur í rekstri síðan 2022.
Malik Burgers, vefjur and shakes verður til húsa í Skeifunni, nánar tiltekið í Faxafeni 9 og opnar þann 31. maí. 50% opnunartilboð verður í boði fyrstu þrjá dagana og fríir drykkir. Eins og á Akureyri verður líka hægt að kaupa réttina í Reykjavík í gegnum Wolt.
Ali Hyder Malik rekur tvo skyndibitastaði á Akureyri og nú opnar hann þriðja staðinn í Reykjavík.