Fara í efni
Fréttir

Nóa konfektkassi tileinkaður Akureyri

Verslun Krónunnar var opnuð á Akureyri í gær, 1. desember, og fór varla framhjá mörgum. Eitt af því sem vakti athygli í versluninni var konfektkassi frá Nóa Síríus sem skartaði mynd af Akureyrarkirkju en kassinn var framleiddur sérstaklega í tilefni opnunar nýju verslunarinnar.

„Fáar vörur eru jafn órjúfanlegur hluti af jólunum hjá fjölmörgum Íslendingum eins og konfektið frá Nóa Síríus. Það er því mikill heiður fyrir okkur hjá Krónunni að opnun verslunarinnar á Akureyri skuli vera heiðruð með þessum hætti,“ segir Markús Andri Sigurðsson, vörumerkjastjóri Krónunnar, í tilkynningu og er þakklátur fyrir viðtökurnar: „Viðskiptavinir okkar á Akureyri hafa tekið konfektkassanum fagnandi og því ljóst að myndin af Akureyrarkirkju mun prýða mörg heimili á Norðurlandi þessi jólin.“

Alda Björk Larsen, markaðsstjóri Nóa Síríus, kveðst ánægð með útkomuna: „Við leituðum lengi að hinni fullkomnu mynd á kassann og á endanum varð þessi fallega mynd af Akureyrarkirkju, eftir Helgu Rósu Guðjónsdóttur, fyrir valinu. Kirkjan er auðvitað sterkt kennileiti í bænum og vel við hæfi að hún sé í aðalhlutverki í þessum fyrsta konfektkassa sem er sérstaklega tileinkaður Akureyri.“