Fara í efni
Fréttir

Njáll Trausti stígur næstu skref vikulega

Njáll Trausti Friðbertsson á leið í göngutúr með tíkina Bellu á Akureyri í gær. Ljósmynd: Skapti Hal…
Njáll Trausti Friðbertsson á leið í göngutúr með tíkina Bellu á Akureyri í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn hefur um skeið haldið úti vikulegum spjallþætti á Facebook síðu sinni og vakið athygli fyrir margvíslega umfjöllun. Þættina kallar hann Næstu skref.

„Hugmyndin var að dýpka umræðu um mál sem ég hef mikinn áhuga á og skipta miklu máli. Mér finnst þetta góður miðill til þess,“ segir Njáll við Akureyri.net.

„Ég hef tekið ýmis mál fyrir, til dæmis var rætt um drengi og menntakerfið í einum þættinum, ég hef talað um álverið fyrir austan og áhrif þess á Austurland, um öryggis- og varnarmál, sérstaklega með tilliti til Norðurlanda og um Reykjavíkurflugvöll auðvitað – það var fyrsti þátturinn og fékk gríðarlegt áhorf.“

Orkuskipti voru rædd í einum þættinum, enda segist Njáll Trausti hafa mikinn áhuga á orkumálum og muni halda áfram að tala um þau. „Í janúar og febrúar ætla ég að ræða um sjúkraflugið. Það er af nógu að taka. Ég gæti líklega verið með daglegan þátt!“

Sérkennilegt ár

Störf þingmanna breyttust verulega á árinu eins og margra annarra, ekki síst í ýmsum nefndum. „Ég er í fjárlaganefnd og þar var fundað í 10 til 11 klukkutíma dag eftir dag, þar sem maður var einn heima hjá sér við tölvuna. Heilu vikurnar fóru reyndar í fjarfundi frá morgni til kvölds. Ég hefði aldrei getað trúað þessu fyrirfram en eftir árið eru menn orðnir þjálfaðir í þessu og fólk mun vinna mun meira heima en áður. Covid hefur flýtt þróuninni um mörg ár; þessar gríðarlegu breytingar eru hluti af fjórðu iðnbyltingunni. Hugsaðu þér hve gott er að búið var að ljósleiðaravæða landið.“

Njáll Trausti er formaður Íslandsdeildar Natóþingsins og varð heldur betur var við breytingar á þeim bænum vegna Covid. Í stað fjölmennra hefðbundinna funda tók tæknin völdin. „Ég stjórnaði til dæmis fundi í vísinda- og tækninefnd Natóþingsins úr stofunni hér heima á Akureyri um miðjan júlí. Það var með því sérstæðasta sem ég gerði á árinu; þetta var 70 til 80 manna fundur, og þátttakendur voru frá Svartahafinu í austri til Kaliforníu í vestri. Mesti tímamunur hátt í hálfur sólarhringur!“

Fýlupokafélagið

Þættir Njáls Trausta hafa verið á dagskrá klukkan 13 á sunnudögum, „en ég skellti reyndar einu sinni þætti í loftið í miðri viku, þar sem talað var um mikilvægi ferðaþjónustunnar. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á henni og lokaverkefið mitt í viðskiptafræðinni fyrir 16 árum, var einmitt um efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar. Þá voru ekki margir að pæla í þeim málum. Hugsaðu þér; þá komu um 300.000 ferðamenn til landsins á ári, álíka margir og íbúar landsins, en árið 2018 voru þeir 2,3 milljónir! Þeim hafði fjölgað um tvær milljónir á 15 árum, sem er grundvöllurinn að þeirri miklu uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað undanfarið.“

Talandi um þættina, þá var það ekki fyrr en í þeim síðasta sem Njáll Trausti bauð kollegum sínum úr stétt stjórnmálamanna í þáttinn. Þá mættu til leiks samherjar hans í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Haraldur Benediktsson, Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson. Fjórmenningarnir eru að auki saman í sérstöku félagi, Fýlupokafélaginu, sem þeir kalla svo!  „Þrátt fyrir það get ég lofað þér því að sá þáttur var mjög skemmtilegur, og við ræddum margt mikilvægt“ segir Njáll og hlær.