Neytendur geta valið milli átta raforkusala
Fallorka ehf. mun hætta sölu á rafmagni um næstkomandi áramót og rafmagnsnotendur sem hafa keypt rafmagn af Fallorku þurfa að velja sér nýjan raforkusala fyrir 10. desember nk. Fallorka hefur samið við Orkusöluna um sölu á öllu rafmagni sem Fallorka framleiðir en núverandi viðskiptavinir Fallorku eru ekki bundnir við að færa sig til Orkusölunnar.
Viðskiptavinir Fallorku hafa án efa orðið varir við tilkynningar frá fyrirtækinu um þessar breytingar enda er hætta á því að lokað verði fyrir rafmagn hjá þeim sem ekki bregðast við og finna sér annan raforkusala tímanlega. Borið hefur á því að fólk standi í þeirri trú að viðskiptavinir Fallorku færist sjálfkrafa til Orkusölunnar en svo er ekki. Hver og einn þarf að bregðast við og velja sér nýjan raforkusala og öll raforkusölufyrirtækin, átta talsins, þjóna öllu landinu og verðskrá þeirra er mismunandi.
Raforkudreifing og raforkusala aðskilin frá 2003
- En hvernig stendur á því að hægt sé að velja milli margra raforkusala þegar það liggur bara einn rafstrengur inn í hvert hús? Ástæðan er sú að með raforkulögum frá 2003 var dreifingu og sölu raforku skipt upp. Sama fyrirtæki má því ekki framleiða og selja raforku annars vegar og flytja og dreifa henni hins vegar.
- Af þessum sökum stofnaði Norðurorka dótturfyrirtækið Fallorku, sem hefur séð um að framleiða og selja rafmagnið en Norðurorka rekur dreifikerfið. Sölusvæði Fallorku hefur verið allt landið, þó að rafmagnið sé framleitt norðanlands.
- Á Akureyri er það Norðurorka sem dreifir raforkunni og það mun ekki breytast. Húseigendur munu áfram þurfa að greiða Norðurorku fyrir rafmagnsflutninginn en þurfa að velja sér annan orkusala en Fallorku.
Fallorka hefur nú ákveðið að draga sig út úr samkeppninni á raforkusölumarkaði og einbeita sér að uppbyggingu og rekstri vatnsaflsvirkjana sinna. Fyrirtækið gerði samning við Orkusöluna um sölu á öllu rafmagni sem Fallorka framleiðir næstu árin og eins og áður segir er Orkusalan eitt þeirra átta fyrirtækja á landinu sem bjóða upp á rafmagn til sölu. Rafmagn er selt í kílóvattstundum (kWst) og lægsta verðið sem Orkusalan býður upp á er 9,92 krónur fyrir hverja kWst. Til samanburðar má geta þess að Fallorka hefur selt kílóvattstundina á 11,94 krónur.
- Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Orkuseturs er raforkunotkun meðalheimilis á Íslandi um 5.000 kWst.
- Raforkukostnaður meðalheimilis í viðskiptum við Fallorku hefur því verið 59.700 krónur á ári.
- Miðað við lægstu verðskrá Orkusölunnar myndi kostnaðurinn lækka talsvert og verða 49.600 krónur á ári.
- Við þetta bætist flutningsgjaldið á rafmagninu, sem Norðurorka innheimtir. Það gjald breytist ekki.
Átta sölufyrirtæki – margs konar leiðir í boði í fyrir neytendur
Eins og áður segir eru átta raforkusölufyrirtæki sem hægt er að velja um og þau þjóna öllu landinu. Flest bjóða þau upp á mismunandi verðskrá og skilmála. Á vef Aurbjargar er hægt að skoða samanburð milli allra orkusala og fá nánari útskýringar á mismunandi verðskrá.

Yfirlit yfir orkusölufyrirtæki og verðskrá þeirra. Lengst til hægri sést meðalkostnaður heimilis á mánuði, miðað við lægsta verð hvers raforkusala og 5.000 kWst ársnotkun. Mynd: Skjáskot af aurbjorg.is þann 7. desember 2025.
Ef Orkusalan er tekin sem dæmi þá er svokallað Kjaraverð 9,92 krónur á hverja kWst. Skilyrði fyrir því að njóta Kjaraverðsins er að skrá greiðslukort sem greiðslumáta. Ef viðskiptavinur skráir sig í Kjaraverðs-leiðina án þess að skrá greiðslukort sem greiðslumáta mun Orkusalan hafa samband við viðkomandi til að ganga frá málunum. Þannig er tryggt að viðskiptavinur sem skráir sig í Kjaraverðs-leiðina mun njóta þeirra kjara. Einungis í þeim tilfellum þar sem engin orkuleið er valin við skráningu eru innheimtar 12,97 krónur á kWst, sem er 30% hærra verð en Kjaraverðið.
Flest þessara fyrirtækja bjóða upp á mismunandi leiðir sem henta mismunandi þörfum og því um að gera fyrir neytendur að kynna sér möguleika og skilmála hvers og eins. Taka ber fram að hægt er að færa sig milli orkusölufyrirtækja hvenær sem er og það er neytendum að kostnaðarlausu.