Fara í efni
Fréttir

Netþrjótar stálu upplýsingum um alla í HA

Háskólasvæðið á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson
Háskólasvæðið á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Netþrjótar sem brutust inn í tölvukerfi Háskólans á Akureyri í gær náðu að afrita upplýsingar um alla notendur HA, nemendur, kennara og aðra starfsmenn. Meðal þess sem þrjótarnir náðu í voru notendanöfn, lykilorð, kennitölur og símanúmer. Greint er frá þessu á vef skólans í dag.

Það var síðdegis í gær að tilkynning kom frá Cert-IS, netöryggissveit íslenskra stjórnvalda „að mögulega væru óprúttnir aðilar komnir með fótfestu á netþjóni hjá Háskólanum á Akureyri,“ segir á vef skólans.

„Viðbragðsaðilar voru strax ræstir út og rannsókn sett af stað ásamt aðgerðum til að reyna takmarka skaðann. Í kjölfarið hófust aðgerðir til að reyna stöðva aðilana. Ein af þeim aðgerðum var að auka öryggisstig á tölvukerfum skólans og þurfa notendur nú að nota tveggja þátta auðkenninguna innan veggja skólans.“

Vegna þessa er nauðsynlegt að notendur skipti um lykilorð á tölvukerfum HA sem fyrst. Enn fremur mælir skólinn með því að notendur noti auðkenningar-app frekar en SMS leiðina við innskráningu.

Þá bendir Kerfisstjórn KHA notendum sérstaklega á að vera varir um sig þegar þeim berast SMS og að ýta ekki á hlekki sem í þeim eru og ekki gefa öðrum aðilum upp númerin í þeim heldur stimpla þau sjálf inn til innskráningar í þeim tilfellum sem þið hafið óskað eftir því.

„Þar sem við erum ennþá að rannsaka málið og vegna aukins öryggisstigs er ýmislegt sem ekki virkar sem skyldi í kerfunum í dag,“ segir á síðu HA.