Fara í efni
Fréttir

Nennirðu plís að senda nektarmynd

Helmingur stúlkna í 8.-10. bekk grunnskóla hefur verið beðinn um að senda eða deila af sér nektarmynd. Þar af voru 12% tilbúin til þess að segjast hafa orðið við slíkri beiðni.

Tæplega fjórðungur stráka í 8.-10. bekk grunnskóla hefur verið beðinn um að senda eða deila af sér nektarmynd.

Þetta kemur fram í grein Skúla Braga Geirdal, verkefnastjóra fjölmiðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd. Hann upplýsir að í sjö tilfellum af hverjum 10 hafi beiðni til stelpna komið frá ókunnugum einstkaklingi á netinu og í þremur af hverjum 10 skiptum hjá strákunum.

... annars mun ég drepa mig

Skúli birtir bút úr viðtali sem hann tók í tengslum við  gerð fræðslumyndbanda fyrir miðstig grunnskóla: „Fólk byrjaði að biðja mig um nektarmyndir þegar ég var 9 ára og þá vissi ég ekki að ég gæti sagt nei því að þetta var fullorðið fólk og ég hélt að ég ætti alltaf að hlusta að það sem fullorðnir segja sama hvað,“ skrifar Skúli og heldur áfram: „Nennirðu plís að senda nektarmynd, annars mun ég drepa mig, skaða mig eða finna hvar þú átt heima.“

Skúli skrifar: Eftir að hafa fengið þessi skilaboð sendi þetta barn ókunnugum einstaklingum nektarmyndir í gegnum samfélagsmiðla og veit í dag ekkert hvort þeim hefur verið deilt áfram. „Ég vissi ekki að þetta væri rangt. Ég vissi ekki betur. Það var enginn búinn að kenna mér það,“ hefur hann eftir barninu.

Stuttmyndasamkeppni

„Núna er í gangi stuttmyndasamkeppni sem nefnist Sexan fyrir börn í 7. bekk um mörk og samþykki en einnig um tilurð, birtingarmyndir og afleiðingar stafræns ofbeldis. Bestu myndirnar verða síðan sýndar á vef RÚV í viku sex, kynfræðsluvikunni 6.-10. febrúar nk.,“ segir Skúli í greininni. „Ég hvet alla sem geta til þess að taka þátt því hér er á ferðinni gríðarlega mikilvægt verkefni fyrir börn til þess að tjá sínar hugmyndir og sýn. Þá skulum við sem eldri erum hlusta og meðtaka það sem þau hafa að segja og síðan nýta það inn í þá vinnu sem framundan er. Saman getum við skapað betra og öruggara samfélag á netinu.“

Smellið hér til að lesa grein Skúla Braga