Fara í efni
Fréttir

Naumt tap Þórsara í kaflaskiptum leik

Harrison Butler á flugi, um það bil að skora tvö af 27 stigum sínum í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar urðu að játa sig sigraða þegar lið Sindra frá Hornafirði kom í heimsókn í gærkvöldi í 1. deild karla í körfubolta. Í afar kaflaskiptum leik höfðu gestirnir þriggja stiga sigur, 76:73.

  • Skorið eftir leikhlutum: 19:20 – 11:22 – 30:45 23:24 – 20:7 – 73:76

Þór komst í 7:0, á kafla í fyrsta leikhluta gerðu gestirnir 14 stig á meðan Þórsarar gerðu aðeins tvö, en þegar fyrsta leikhlutanum lauk munaði reyndar aðeins einu stigi.

Þórsarar voru slakir í öðrum leikhluta, gestirnir nýttur sér það og voru 15 stigum yfir í hálfleik. Segja má að þessi kafli hafi skipt sköpum þegar upp var staðið því þrátt fyrir að Þórsarar hafi nánast valtað yfir Hornfirðinga í síðasta leikhlutanum reyndist það ekki nóg. Litlu munaði vissulega en Þórsarar voru klaufar að tryggja sér ekki sigur.

Frammistaða Þórsara; stig, fráköst og stoðsendingar:

Harrison Butler 27/8/3, Jason Gigliotti 20/14/1, Reynir Róbertsson 11/7/2, Smári Jónsson 11/3/0, Michael Walcott 4/2/0, Andri Már Jóhannesson 0/1/1, Róbert Orri Heiðmarsson 0/0/1.

Þórsliðið er í áttunda sæti deildarinnar, með þrjá sigra í 10 leikjum. Snæfell, Hrunamenn, Selfoss og Ármann hafa öll unnið tvo leiki. 

Þórsarar eru áfram í 8. sæti deildarinnar með þrjá sigra úr tíu leikjum, en fjögur lið koma fast á hæla þeirra, Snæfell, Hrunamenn, Selfoss og Ármann, sem öll hafa unnið tvo leiki. Nú tekur við næstum mánaðar hlé, næsti leikur Þórs verður ekki fyrr en 5. janúar.

Smellið hér til að sjá all tölfræðina